Fjárfestingarfélagið Tækifæri hagnaðist um 90 milljónir króna á síðasta ári. Afkoman stendur nokkurn veginn í stað á milli ára, en hagnaðurinn nam 92 milljónum króna árið 2013. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Tækifæri hf. er fjárfestingafélag sem fjárfestir í nýsköpun á Norðurlandi. Félagið er í eigu fyrirtækja og sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og vestra en alls eru hluthafar 33. Stærstu eigendur Tækifæris eru KEA svf., Akureyrarbær, Stapi lífeyrissjóður og Íslensk verðbréf. Íslensk verðbréf sjá um daglegan rekstur félagsins. Framkvæmdasjóri Tækifæris er Jón Steindór Árnason.

Heildareignir félagsins í árslok voru ríflega 600 milljónir króna. Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær var Steingrímur Birgisson endurkjörinn stjórnarformaður og Sverrir Gestsson varaformaður. Aðrir í stjórn eru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Erla Björg Guðmundsdóttir og Óðinn Árnason.