555 milljóna króna hagnaður varð af starfsemi Tækifæris árið 2016, samanborið við 384 milljóna króna hagnað árið áður. Tækifæri er fjárfestingafélag sem fjárfestir í nýsköpun á Norðurlandi. Stærstu eigendur Tækifæris eru KEA svf., Stapi lífeyrissjóður og Íslensk verðbréf. Íslensk verðbréf sjá um daglegan rekstur Tækifæris og er Jón Steindór Árnason framkvæmdastjóri Tækifæris hf. Heildareignir félagsins í árslok 2016 námu 1.550 milljónum króna.

Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í dag var samþykkt að fækka stjórnarmönnum Tækifæris úr fimm í þrjá. Halldór Jóhannsson var kjörinn stjórnarformaður og aðrir stjórnarmenn Sverrir Gestsson og Harpa Samúelsdóttir. Halldór og Harpa eru ný í stjórn félagsins. „Stefna Tækifæris er að fjárfesta í nýsköpun eða nýmæli í atvinnulífi á Norðurlandi. Verkefni þurfa að fela í sér ávöxtunarmöguleika og arðsemi fjármagns með hliðsjón af þeirri áhættu sem í þeim felst,“ segir í tilkynningu frá félaginu.