Eignastýringarfyrirtækið Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, hefur stofnað sjóðinn IS Græn skuldabréf en sjóðurinn fjárfestir í skuldabréfum sem ætlað er að hafa jákvæð áhrif á umhverfi okkar og samfélag. Brynjólfur Stefánsson, sérfræðingur hjá Íslandssjóðum, segir að undanfarna mánuði hafi verið unnið að því að móta stefnu Íslandssjóða um ábyrgar fjárfestingar og samfélagslega ábyrgð. Þeirri vinnu sé nú lokið en þarna hafi Íslandssjóðir komið auga á tækifærin sem felast í því að gefa fjárfestum og viðskiptavinum leið til þess að taka þátt í fjárfestingum sem þessum.

„Fjármagnið sem fæst með útgáfu grænna skuldabréfa er nýtt í verkefni sem að miða að því að bæta umhverfið með einhverjum hætti. Sjóðurinn mun einnig fjárfesta í svokölluðum sjálfbærum skuldabréfum. Það þurfa því ekki einungis að vera umhverfisþættir sem lögð er áhersla á heldur geta þetta einnig til dæmis verið félagslegir þættir. Fjármagnið þarf að nýta til verkefna sem eru samfélagslega ábyrg. Þeir aðilar sem vilja fjárfesta í verkefnum sem miða að því að bæta umhverfið geta því beint fjárfestingum sínum í þennan sjóð."

Hvatning til útgefenda

Nasdaq Iceland opnaði nýverið sérstakan hliðarmarkað fyrir skuldabréf sem stuðla að sjálfbærni og að sögn Brynjólfs mun nýi sjóðurinn taka virkan þátt í að byggja upp þennan nýja markað.

„Markaðir með græn skuldabréf eru til á Norðurlöndunum en enn hafa ekki verið gefið út græn skuldabréf fyrir íslenskan markað. Nasdaq á Íslandi hefur opnað fyrir þessa leið og í stað þess að bíða eftir því að útgefendur hér á Íslandi fari að gefa út græn skuldabréf, þá ákváðum við að búa til sjóðinn til þess að fólk gæti séð það í verki að það sé ekki eftir neinu að bíða. Þetta á því að virka sem hvatning fyrir útgefendur til þess að gefa út græn skuldabréf.

Á meðan markaður með græn skuldabréf er að byggjast upp mun sjóðurinn fjárfesta í ríkisskuldabréfum. Sjóðurinn er vel fjármagnaður eins og staðan er í dag og þetta er okkar leið til þess að setja þessi samfélagslega ábyrgu mál í forgrunn auk þess sem viðskiptavinir fá  tækifæri til að leggja aukna áherslu á þessi mál. Eftir því sem sjóðurinn stækkar verður augljósara hversu mikil eftirspurn er eftir slíkum fjárfestingum."

Brynjólfur segist sjá fyrir sér að græn skuldabréf séu fjármögnunarleið sem komi til með að vaxa mikið á komandi árum, ekki síst vegna þess að loftslagsmál eru eitt af brýnustu málefnum samfélagsins og fjárfestar verði að taka tillit til þeirra í sínum fjárfestingum. Það séu því mikil tækifæri í að auka framboð grænna fjárfestinga þar sem áherslan verði þar á næstu árum og áratugum.

Svipuð ávöxtun og af hefðbundnum skuldabréfum

„Græn skuldabréf hafa marga kosti og reynsla annars staðar hefur sýnt að ávöxtun grænna skuldabréfa er síst síðri en hefðbundinna skuldabréfa. Fjárfestar geta því búist við svipaðri ávöxtun af grænum skuldabréfum og hefðbundnum skuldabréfum. Það sem útgefendur fá er áhersla á ábyrgð,   umhverfisstefnu og félagslega stefnu í sínum rekstri. Þetta opnar einnig fjármögnunarleiðir fyrir breiðari hóp fjárfesta.

Á móti kemur að grænni vottun skuldabréfa fylgir nokkur skriffinnska og henni fylgir ákveðinn kostnaður. Til að mynda þarf þriðji aðili að staðfesta að fjármagnið sem skuldabréfin afla sé nýtt í tiltekin græn verkefni. Þetta hefur því í för með sér kosti og galla. Við höfum fundið fyrir auknum þrýstingi frá almenningi til að geta látið gott af sér leiða í fjárfestingum sínum og einnig er ákveðin pressa á lífeyrissjóðina að hluti þeirra fjárfestinga sé í þessa átt. Ef spár ganga eftir varðandi hlýnun jarðar má búast við verulegum ytri markaðsáhrifum og þar eru töluverðar líkur á að umhverfislega ábyrgar fjárfestingar  muni ganga betur en aðrar," segir Brynjólfur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .