*

þriðjudagur, 20. október 2020
Innlent 16. október 2020 15:56

Tækifæri í krefjandi lágvaxtaumhverfi

Síðasta ár fól í sér ákveðið uppgjör og nýtt skipulag hjá Kviku, sem fékk nýverið leyfi til að reka sérhæfða sjóði.

Ritstjórn
Hannes Frímann Hrólfsson er framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar.
Eyþór Árnason

Lágvaxtaumhverfið gerir leitina að fjárfestingatækifærum meira krefjandi en áður og eykur eftirspurnina eftir sérhæfðri fjárfestingaráðgjöf. Í því felast bæði áskoranir og tækifæri að sögn Hannesar Frímanns Hrólfssonar, framkvæmdastjóra Kviku eignastýringar hf., dótturfélags Kviku banka.

Síðustu ár hafa verið talsverðir umbrotatímar hjá Kviku banka en á undanförnum tíu árum hafa tólf fjármálafyrirtæki sameinast undir hatti bankans. Umsvif starfseminnar hafa eðli málsins samkvæmt tekið stakkaskiptum í takt við það.

„Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Bankinn hefur komið að mörgum yfirtökum og samrunum og er árangur þeirrar vegferðar ekki síst að koma fram einmitt núna. Árið í fyrra var ákveðið uppgjör vegna þessara kaupa þar sem farið var í að endurskipuleggja eignastýringarstarfsemina í samræmi við það,“ segir Hannes.

Kvika hefur gefið það út að bankinn ætli sér að vera leiðandi á sviði eignastýringar hér á landi. Undir lok síðasta árs var tekin ákvörðun um að samþætta eignastýringarstarfsemi samstæðunnar sem mest á einum stað. Í september á þessu ári fékk Kvika eignastýring hf. leyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða, fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja. Við það fluttist öll eignastýringarstarfsemi sem áður hafði verið í bankanum til félagsins.

„Heildareignir í stýringu hjá Kviku banka eru í dag um 515 milljarðar króna og af því eru um 321 milljarðar í stýringu hjá Kviku eignastýringu hf. sem gerir okkur að einu stærsta eignastýringarfélagi landsins. Á fimm ára tímabili frá árinu 2015 hafa heildareignir í stýringu hjá Kviku nærri fimmfaldast eða farið úr 111 milljörðum í 515 milljarða nú. Það er gríðarlegur vöxtur,“ segir Hannes.

Innan fyrirtækisins er gríðarleg reynsla af fjármálamarkaði. „Við töldum þetta saman um daginn og er heildarstarfsaldur á fjármálamarkaði þeirra þrjátíu starfsmanna sem starfa hjá félaginu yfir 500 ár. Með auknum umsvifum síðustu ára er sérhæfing okkar alltaf að aukast.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.