Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson fara fyrir hópi fjárfesta sem hefur keypt um þriðjungshlut í Högum og sitja þeir báðir í stjórn félagsins. Árni og Hallbjörn eru kunnastir fyrir að hafa átt og rekið Húsasmiðjuna um árabil en nánast ekkert hefur sést til þeirra í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár.

Smásala á Íslandi hefur orðið fyrir miklum samdrætti undanfarin ár en Hallbjörn segir flestar verslanir Haga í góðum rekstri en þær eru 62 talsins. „Einhverjar þeirra ganga ekki vel um þessar mundir vegna slæms efnahagsástands en við lítum á það sem tímabundið ástand. Við erum að veðja á að hagkerfið verði í lagi til lengri tíma litið og sjáum tækifæri í að kaupa fyrirtækið á þessu verði þegar ástandið er ekki eins og best verður á kosið.“

Árni bætir við að þeir vilji heldur kaupa í kreppu en góðæri en aðstæðurnar þurfi þá að endurspeglast í verðinu. „Við trúum því að Ísland verði í lagi þegar fram líða stundir.“ Hallbjörn segir þá líta á allar fjárfestingar til lengri tíma og að þeir kaupi í félögum sem eru í góðum rekstri dag frá degi. „Við kaupum í félögum sem við treystum okkur til að eiga, og jafnvel gleyma, í fimm til 10 ár og þau verði í lagi.“

Árni og Hallbjörn ætla ekki að segja stjórnendum fyrir verkum en þeir hafa skoðun á því hvað gert er við fjárstreymi fyrirtækisins. „Ef fyrirtæki eiga mikla vaxtarmöguleika eiga þau að halda peningunum inni í rekstrinum. Hjá Högum eru alltaf einhverjir vaxtarmöguleikar en ekki nein stórkostleg vaxtartækifæri þar sem fyrirtækið er nú þegar umsvifamikið þannig að vöxturinn næstu árin verður aldrei upp á einhverja tugi prósenta. Við viljum að skuldir séu greiddar niður og að hluthafar fái sitt með arðgreiðslum,“ segir Hallbjörn.

„Hagar geta verið spennandi fjárfestingarkostur fyrir þá sem vilja fá meira en tveggja til þriggja prósenta ávöxtun í bankanum,“ bætir Árni við.

Ítarlegra viðtal við Árna og Hallbjörn má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak undir liðnum tölublöð hér að ofan.