Roelfien Kuijpers var í haust valin ein af 25 áhrifamestu konum heims í fjármálum af American Banker. Hún hefur á 35 ára ferli sínum verið leiðandi í umræðunni um mikilvægi sjálfbærni, fjölbreytileika og jafnrétti á fjármálamörkuðum. Í dag er hún yfirmaður ábyrgra fjárfestinga og stefnumótandi tengsla hjá DWS Group á Írlandi, Skandinavíu og Bretlandi. Hún er bjartsýn fyrir komandi kynslóðum og telur Ísland geta sett stórt fordæmi í málaflokknum.

Roelfien hafði lengi vel ætlað sér að starfa í utanríkisþjónustu Hollands og var langtímamarkmið að gerast sendiherra. Þau plön breyttust þó eftir framhaldsnám í sagnfræði og alþjóðafræði, þegar hún flutti til New York ásamt eiginmanni sínum árið 1985. Þar hafði hún byrjað á því að velta fyrir sér frekari fræðistörfum, en kunningi hvatti hana til þess að fara á Wall Street.

„Ég var í kokteilboði og rakst á kunningja sem sagði við mig að fyrst ég væri í New York, ætti ég að fara að vinna á Wall Street. Fyrirtækið sem hann starfaði fyrir var að leita að manneskju sem gæti farið að starfa við sölu á evrópskum verðbréfum. Ég lét mig hafa það að fara í viðtal og það endaði með því að ég var ráðin á staðnum. Þannig hófst í raun ferill minn fyrir 35 árum síðan.“

Það var þó ekki fyrr en árið 2005 sem starf hennar fór að taka frekari stefnu í átt að ábyrgum fjárfestingum. „Árið 2005 var ég, ásamt framkvæmdastjóra alþjóðlegra hlutabréfa hjá Deutsche Bank og þeim sem er í dag alþjóðlegur framkvæmdastjóri DWS, fengin í ákveðna stefnumótun. Við áttum meðal annars að gera lista yfir 10 „mega trends“ sem gætu einkennt næstu áratugi. Síðasta atriðið á þessum lista var loftlagsváin.“ Hún segir marga viðskiptavini hafa furðað sig á því hvers vegna loftlagsmálin væru á radarnum.

„Að okkar mati voru stórar áskoranir á þessu sviði og hlutverk fjármálageirans afar mikilvægt. Við töldum að hið opinbera og einkageirinn þyrftu að koma saman til þess að takast á við áskoranir sem þessar. Við settum meðal annars á fót rannsóknastofnun á vegum fyrirtækisins sem sérhæfði sig í greiningu á loftlagsmálum og sú stofnun er enn til í dag.“

Kynslóðaskiptin munu sjást

Þegar kemur að fjármálum segir Rolfien allar rannsóknir benda til þess að sjálfbærni og samfélagsábyrgð skili sér til allra hagaðila.

„Árið 2015 fór einn sjóðstjóri DWS í doktorsnám í Hamborg. Í ritgerð sinni leit hann til rannsókna sem náðu allt til ársins 1970. Niðurstöðurnar voru þær að með sjálfbærni, samfélagslegri ábyrgð og góðum stjórnarháttum væri hægt að ná verulega betri og öruggari árangri. Fyrirtæki sem leggja mikið upp úr UFS, eru með betri viðskiptamódel, eru sjálfbærari og fá betri vaxtartækifæri. Fyrir vikið eru þau líka betri fjárfestingakostir.

Markaðir hafa síðustu ár einnig tekið meira mið af loftlagsmálum þegar kemur að verðlagningu verðbréfa. „Hvert einasta hagkerfi og hvert einasta fyrirtæki mun verða fyrir áhrifum orkuskipta. Markaðir eru svo sannarlega farnir að taka mið af því. Sem dæmi er markaðsvirði Tesla orðið hærra en VW, ástæðan er sú að Tesla er með viðskiptamódel framtíðarinnar og áhættan er að VW takist ekki að aðlagast tæknibreytingunum nægilega hratt.“ Hún segir áhættuþætti þó ekki vera það eina sem þurfi að horfa til, heldur fylgi öllum breytingum ákveðin tækifæri líka. „Til eru fyrirtæki sem munu ná að breyta viðskiptamódelum sínum með miklum árangri, en einnig munu mörg ný fyrirtæki spretta upp á næstu árum sem takast á við áskoranirnar sem fylgja loftlagsmálum.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um Viðskiptaþing sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .