Fjallað er um nýjan sérleyfissamning bátasmiðjunnar Rafnar við bandaríska fyrirtækið Fairlead í Viðskiptablaðinu sem kom út fyrir helgi. Fairlead mun framleiða og selja Rafnar báta vestanhafs og opnar samstarf fyrirtækjanna Rafnari dyr á bandarískum mörkuðum.

Bob Bodvake, framkvæmdastjóri bátaframleiðslu hjá Fairlead, segir fyrirtækið sjá mikil tækifæri í eiginleikum skrokksins frá Rafnari.

„Við hjá Fairlead erum sérstaklega áhugasöm um bátinn vegna þeirra tækifæra sem felast í því að selja hann sem valkost fyrir ómannaðar siglingar. Við teljum Rafnar-skrokkinn vera gríðarlega hentugan fyrir hverskyns ómannaðar siglingar vegna þess að báturinn er mun stöðugri en aðrir bátar. Þau kerfi sem nýtt eru um borð í ómönnuðum bátum munu vafalaust virka betur vegna stöðugleikans," segir Bob

Nýtist í mannaðar sem ómannaðar siglingar

Ólafur William Hand, sölu- og markaðsstjóri Rafnar, segir að bátar Rafnars geti nýst bæði undir mannlausar og mannaðar ferðir.

„Það hefur verið mikil þróun í mannlausum skipum, eða svokölluðum drónabátum, og hafa bandarískir aðilar ákveðið að taka virkan þátt í slíkri þróun til framtíðar. Bátsskrokkur Rafnars, ÖK Hull, hefur verið hannaður til að fara vel með fólkið og búnaðinn um borð. Mannlausir bátar nýtast til dæmis við eftirlit, rannsóknir eða jafnvel til flutninga í framtíðinni, en við, í samstarfi við Fairlead, erum að horfa til þess að bjóða upp á skrokk sem hægt er að nota í jafnt í mannlausum og mönnuðum siglingum," segir Ólafur.

Líkt og lest á teinum

Daníel Freyr Hjartarson, verkfræðingur hjá Rafnar, segir eiginleika bátaskrokks Rafnars vekja mikinn áhuga. Báturinn fari enda betur með áhöfn og búnað en aðrir bátar vegna einstaks stöðugleika hans.

„Undir skrokknum er ákveðin dreifing á há- og lágþrýstisvæðum sem gerir það að verkum að báturinn skellur minna á sjónum. Það er hálfpartinn eins og báturinn haldist á sjónum með sogskálum, sem gerir það að verkum að hann vill síður fara að skoppa upp úr og skella aftur ofan í sjóinn. Þegar stefni bátsins byrjar að skella ofan í sjó veldur það höggum, til dæmis á áhöfn og búnaði. Hönnunin okkar dregur talsvert úr þessum áhrifum.

Undir skrokknum er líka sérstakur kjölur, líkt og á seglskútum, sem gerir það að verkum að báturinn hegðar sér nánast eins og lest á teinum. Það er eiginlega alveg sama hvað menn rykkja í stýrið á þessum bát, hann hlýðir öllu. Þegar björgunarsveitaráhöfn, sem dæmi, er í átta tíma leitar- eða björgunaraðgerðum þá er mjög mikilvægt að það fari eins vel og mögulegt er um fólkið um borð í skipinu. Það eykur öryggi þeirra og líkur á að sú aðgerð sem unnið er að heppnist," segir Daníel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .