*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 3. desember 2018 14:54

Tækifæri í sjálfvirknivæðingu

„Með framförum í upplýsingatækni fjölgar þeim verkefnum stöðugt sem hægt er að sjálfvirknivæða,“ segir forstjóri Origo.

Sveinn Ólafur Melsted
Finnur Oddsson, forstjóri Origo.
Haraldur Guðjónsson

Margt virðist benda til þess að hagkerfið sé að kólna, blikur eru á lofti um hægari hagvöxt eftir uppsveiflu síðustu ára og margir hafa lýst yfir áhyggjum vegna komandi kjaraviðræðna, ekki síst í ljósi kröfu verkalýðshreyfingarinnar um talsverðar launahækkanir.

Finnur Oddsson, forstjóri Origo, segist aðspurður um hvort hann hafi áhyggjur af þróun mála og hvort hann sjái fyrir sér að ráðast þurfi á hagræðingar innan félagsins á næstunni, að hann hafi þá trú að samningsaðilar muni komast að skynsamlegri niðurstöðu sem feli ekki í sér launahækkanir sem muni ýta af stað einhvers konar keðjuverkun. Hann hafi því ekki beint áhyggjur og segir að fyrirtækið muni tækla verkefnin eins og þau komi til þess.

„Ef við horfum á hagkerfið okkar síðustu ár, þá má segja að við höfum verið heppin og ýmsir hlutir fallið með okkur, meðal annars ferðaþjónustan, gengi krónunnar, lágt olíuverð og annað slíkt. Þetta eru áhrifaþættir sem við getum ekki treyst á að muni aftur falla með okkur og forða frá annars vísum afleiðingum hagstjórnarmistaka.  Ég held að þetta sjái flestir.  Eðli máls samkvæmt setja samningsaðilar sig í ákveðnar stellingar, en ég hef bara ekki trú á því að skynsamt fólk muni setjast niður og semja um eitthvað sem nánast öruggt er að skapi verulegan óstöðugleika og kjararýrnun fyrir alla.

En óháð því um hvað verður samið, þá verður krafan um hagræðingu alltaf til staðar og hún á að vera það. Við eigum að leitast við að gera hlutina með hagkvæmari hætti í dag heldur en við gerðum í gær - framfarir felast í því. Ef verkefni fela í sér endurtekningu eða eru ekki sérlega skemmtileg, þá eigum við að leita leiða til þess að láta vélar vinna þau til að við getum snúið okkur að öðrum mikilvægari og skemmtilegri. Með framförum í upplýsingatækni fjölgar þeim verkefnum stöðugt sem hægt er að sjálfvirknivæða.  Þetta sjáum við m.a. í fjölda þeirra fyrirtækja sem merkja sig með einum eða öðrum hætti sem „stafræn".  Þessi stafræna vegferð er í raun bara annað orð yfir hagræðinguna sem felst í því að gera viðskiptaferla einfaldari eða skilvirkari og í mínum huga er nánast ómögulegt að ná því marki án stuðnings upplýsingatækninnar.  Þessi þróun er ákaflega spennandi fyrir fyrirtæki eins og Origo, sérstaklega í þeirri mynd sem við erum í dag."

Viðtalið við Finn í heild sinni má nálgast í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Finnur Oddsson Origo