„Aðstæður okkar og umhverfi hér á Íslandi er einstaklega gott og tækifærin eru mörg. Þetta kann að hljóma eins og klisja, sérstaklega eftir allar Ísland-best-í-heimi ræðurnar á árum áður,” segir Sigríður Ingvarsdóttir, settur forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og brosir við.

„Við megum samt ekki fara of langt í hina áttina þannig að við hættum að sjá það sem greinir okkur frá öðrum og gefur okkur sérstöðu, styrkleika okkar sem og veikleika. Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að möguleikar okkar hér á Íslandi til nýsköpunar séu mjög miklir á nokkrum sviðum. Þetta er jafnframt svið sem eru í miklum vexti og greinendur eru almennt sammála um að eftirspurn eigi eftir að aukast á næstu áratugum. Tækifæri okkar í nýsköpun tengdri heilsu og heilbrigði eru mjög mikil. Við þurfum ekki að horfa til framtíðar til að sjá þetta, nú þegar eigum við öflug fyrirtæki á þessu sviði sem selja vörur sínar út um allan heim og velta milljörðum, en eiga uppruna sinn að rekja til nýsköpunar.

Sagan geymir þannig góð fordæmi og þegar horft er til framtíðar blasir við að markaðir með vörur tengdar heilsu og heilbrigði munu stækka hratt og mikið á næstu árum. Ef fram fer sem horfir, þá er í dag fæddur sá einstaklingur sem mun ná 150 ára aldri og það segir allt sem segja þarf. Loks vil ég nefna nýsköpun í tengslum við upplifanir. Þetta kann að hljóma nýstárlega en upplifanir eru grundvöllur iðnaðar sem er í miklum vexti. Tæknin hefur einfaldað líf okkar verulega og eiginlega þurfum við ekki lengur að fara út fyrir hússins dyr ef því er að skipta. En auðvitað viljum við ekki vera innilokuð heima heldur sjá heiminn, upplifa ólíka menningu, umhverfi og náttúru. Hér á Íslandi eru aðstæður okkar til að skapa og veita slíkar upplifanir einstaklega góðar og tækifærin mörg,” segir Sigríður.

Viðtal við Sigríði Ingvarsdóttur má lesa í held sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .