Meðaltekjur þeirra ferðamanna sem hingað til lands koma eru yfir meðallagi. Það býður upp á aukin tækifæri til að auka arðsemi ferðaþjónustunnar, m.a. með hærri verðlagningu þar sem það á við.

Þetta kom fram á rástefnu Landsbankans um ferðaþjónustu sem nú stendur yfir í Hörpu. Þar fóru þeir Sigþór Jónsson, framkvæmdastjóri Landsbréfa og Helgi Júlíusson, sjóðstjóri hjá Landsbréfum, yfir starfsemi framtakssjósins ITF1 (Iceland Tourist Fund 1) sem rekinn er af Landsbréfum í samstarfi við Icelandair Group.

Starfsemi sjóðsins hefst formlega nú í mars og áætluð stærð hans er um 1,5 – 2,5 milljarðar króna og gert er ráð fyrir að sjóðurinn fjárfesti í 5 – 10 verkefnum. Hámarksstærð einstakra fjárfesta er 20% af sjóðnum. Líftími sjóðsins er áætlaður til 2020.

Fram kom í máli Helga að sjóðurinn væri hugsaður sem fjárfestingasjóður en ekki sem styrktarsjóður. Hér er um virkan fjárfestingasjóð að ræða og stjórnendur sjóðsins gera ráð fyrir því að taka sæti í stjórn þeirra verkefna eða fyrirtækja sem fjárfest er í, en Helgi tók þó fram að sjóðurinn sæktist ekki eftir því að eignast meirihluta í umræddum fyrirtækjum.

Sigþór bætti því við í lok erindisins að þó svo að sjóðurinn hefði ekki verið formlega settur á fót hefðu margir sýnt honum áhuga og leitast eftir því að fjárfesta í honum.