Mikilvægi þess að lítil, opin hagkerfi á borð við Ísland geti veitt erlendum fjárfestingum viðtöku til ávöxtunar er ótvírætt og hefur landið alla burði til að skapa erlendu langtímafjármagni ákjósanlegan hreiðurstað.

Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar farið skakkt á skeiðinu um áraraðir í þeim efnum, með miklum fórnarkostnaði fyrir þjóðarbúið, og hafa erlendir fjárfestar gjarnan haldið sér til hlés í fjárfestingum vegna ýmissa ásteytingarsteina í efnahagslegu umhverfi Íslands.

Alltaf er þó tækifæri til að ná því til baka sem farið hefur forgörðum, og hafa stjórnvöld allar forsendur til að gera Ísland að eftirsóknarverðum stað fyrir erlendar fjárfestingar.

Þetta var kjarni umræðunnar á opnum fundi síðastliðinn föstudag er bar yfirskriftina „Er eftirsóknarvert að fjárfesta á Íslandi“. Fundurinn var haldinn á vegum Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, PricewaterhouseCoopers (PwC), Landsvirkjunar og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Framsögumenn voru Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Paul Nillesen, eigandi hjá PwC í Hollandi, og Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Varnarmúrar Íslands

Hagtölur sýna að bein erlend fjárfesting (BEF) hefur verið mjög lág á Íslandi frá aðild landsins að EES árið 1994 í samanburði við flest vestræn ríki og hefur hún ekki vaxið umtalsvert frá þeim tíma þrátt fyrir aukið aðgengi erlendra fjárfesta.

Á tímabilinu 1994-2003, eða árin milli þess sem Ísland gerðist aðili að EES og álversframkvæmdir Alcoa hófust í Reyðarfirði, nam meðaltal innflæðis BEF um 1,5%, borið saman við um 2,4% í Noregi, 4% í Finnlandi, 5,8% í Danmörku og 7,2% í Svíþjóð. BEF jókst síðan fram til 2007 vegna álversframkvæmdanna og nam um 6,8 milljörðum Bandaríkjadala, en frá kreppu hefur innflæðið nær staðnað og verið að meðaltali um 552 milljónir dollara á sama tíma og innflæði BEF á alþjóðavísu hefur tekið við sér. Gylfi Magnússon benti á að erlendar fjárfestingar hefðu beinst í of ríkum mæli að afmörkuðum geirum á borð við orkufrekan iðnað, í stað þess að dreifast yfir ólíkar greinar hagkerfisins.

Ástæðan fyrir lítilli BEF og stöðnun eru hömlur á erlenda fjárfestingu á Íslandi, sem eru með þeim mestu meðal OECD ríkja. Hér eru fjármagnshöft, sem þó er verið að losa, en reglur um erlendar nýfjárfestingar eru einkum íþyngjandi í sjávarútvegi, orkugeiranum og í flugsamgöngum, og er vísitala OECD á hömlum á BEF í þessum greinum á Íslandi langt yfir OECD meðaltalið. Í sjávarútvegi takmarkast erlent eignarhald við 25%, orkuvinnsla og orkudreifing er eingöngu opin fyrir innlenda aðila og aðila innan EES, og í flugsamgöngum getur erlend fjárfesting í eigin fé aðeins numið 49% að hámarki.

Útflutningur frá Íslandi nam 11 milljörðum Bandaríkjadala árið 2015 – 26,4% í ferða- þjónustu, 18,2% í sjávarútvegi og 16,4% í orkuiðnaði – en útflæði fjármagns vegna BEF nam aðeins 43 milljónum Bandaríkjadala. Sýnir það að þessir geirar laða til sín mjög litla BEF.

Fótakefli í efnahagslegu umhverfi

Gylfi benti á fleiri þætti sem bægja erlendum fjárfestum frá landinu, en erindi hans fjallaði um hagfræðilegan ávinning erlendra fjárfestinga. Neyðarlögin og fjármagnshöftin hafa skapað mikla tortryggni meðal erlendra fjárfesta, sem urðu vitni að einbeittum vilja íslenskra stjórnvalda til að breyta leikreglunum og hættuna á því að lokast inni með fjármuni sína hérlendis. Gengisáhætta krónunnar er síðan fráhrindandi fyrir erlenda fjárfesta og erlend fyrirtæki með verulega starfsemi á Íslandi.

Aðrir þættir sem koma til með að útskýra af hverju erlendir fjárfestar halda að sér höndum í fjárfestingum á Íslandi eru smæð innanlandsmarkaðar og staðsetning, sem veldur skorti á stærðarhagkvæmni og háum flutningskostnaði, pólitísk áhætta, tíðar skattbreytingar, takmarkað upplýsingafæði og mögulega skortur á málefnalegri umræðu um erlenda fjárfestingu á Íslandi.

Gylfi benti einnig á að Ísland fengi dapurlega einkunn í mælikvörðum á samkeppnishæfni. „Í mati World Economic Forum á samkeppnishæfni þjóða erum við eiginlega í tossabekknum á meðal vestrænna þjóða, sem er að vísu erfiðasta deildin að keppa í,“ sagði Gylfi. Það kæmu við sögu þættir á borð við viðskiptaumhverfi, þjóð- hagslegur stöðugleiki, og stuðningur við rannsóknir, þróun og menntun.

Ef fjallið kemur ekki til Múhammeðs…

Að dómi Pauls Nillesen býður Ísland upp á „allt það besta til þess að farnast vel í að laða til sín þá sem vilja fjárfesta og stunda við- skipti“. Nillesen nálgaðist fjárfestingartækifæri á Íslandi líkt og ef landið væri fyrirtæki. Benti hann á að þær greinar þar sem Ísland hefur hlutfallslega yfirburði – orkuiðnaðurinn, sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan – gætu skapað verðmæti fyrir erlenda fjárfesta. Þessir geirar eru enn fremur studdar af ungri og vaxandi þjóð, háu menntunarstigi og vaxandi vinnumarkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .