„Það er markmið að fjölga vélum og leita að nýjum tækifærum,“ segir Steinn Logi Björnsson. Hann hefur keypt helminginn í fraktflugfélaginu Bláfugli á móti Haru Holding, móðurfélagi Air Atlanta. Tilkynnt var um söluna í vikunni . Seljandi er Miðengi, dótturfélag Íslandsbanka.

Bláfugl er með fimm vélar í sinni þjónustu, leigir fjórar en á eina. Steinn Logi Björnsson verður stjórnarformaður Bláfugls. Hann segir að félagið muni ekki kaupa nýjar vélar strax.

„Til að byrja með held ég að þetta snúist um að það er búið að vera lægð á fraktmarkaðnum en til viðbótar er félagið búið að vera í biðstöðu því það er búið að vera svo langt söluferli. Auðvitað hefur fyrirtækið liðið fyrir það,“ segir Steinn Logi. Það sé því tækifæri til að leysa úr læðingi ákveðna krafta. „Þetta er í grunninn gott félag með góða sögu og gott starfsfólk. Þannig að við höldum að það sé hægt að gera betur en verið er að gera núna,“ segir hann.