Greint var frá því í síðustu viku að fjármálafyrirtækið Fossar markaðir hefði fengið aðild að kauphöllum Nasdaq Nordic í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Frá og með 17. september síðastliðnum  hefur fyrirtækið því getað átt bein og milliliðalaus viðskipti með öll skráð verðbréf í kauphöllunum tveimur. Með þessu urðu Fossar fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið í yfir áratug til þess að tengjast erlendum kauphöllum með þessum hætti.

Sylvester Andersen, sölustjóri hlutabréfa- og afleiðumarkaða hjá Nasdaq Nordic, hefur verið staddur hér á landi í vikunni til þess að funda með íslenskum fjármálafyrirtækjum um möguleika þeirra á kauphallaðild hjá Nasdaq Nordic. „Við höfum verið með starfsemi hérna í langan tíma í gegnum Nasdaq Iceland sem hefur gengið mjög vel,“ segir Sylvester. „Við sáum hins vegar afnám fjármagnshafta á síðasta ári sem tækifæri til þess að aðstoða íslenska aðila við að ná aftur tengingu við alþjóðlega markaði. Það eru ekki kjöraðstæður fyrir fjármálafyrirtæki eða verðbréfamiðlun að hafa ekki beinan aðgang að erlendum mörkuðum þar sem fjármálafyrirtæki eiga undir venjulegum kringumstæðum að hafa aðgang að öðrum mörkuðum en bara þeim sem er í heimalandinu sem hefur í raun verið staðan á Íslandi síðustu 10 ár.

Þar sem íslenskir bankar og verðbréfafyrirtæki hafa nú þegar tæknilegar tengingar við Nasdaq í gegnum íslenska markaðinn þá hefur verið nokkuð auðvelt að ræða tækifærin sem felast í því að tengjast öðrum mörkuðum. Það er í raun nokkuð fyrirhafnarlítið að tengja þessa aðila við aðra markaði þar sem þeir hafa nú þegar aðgang að kerfum Nasdaq. Frá mínu sjónarhorni er þetta því tækifæri fyrir Ísland til þess að stíga skref í átt að jafnvægi á fjármálamarkaði ef svo má að orði komast. Það er augljóslega ekki fýsilegt fyrir opið markaðshagkerfi að geta ekki með beinum hætti tekið þátt á erlendum mörkuðum eða fjármálafyrirtæki að geta ekki þjónustað viðskiptavini sína sem vilja eiga viðskipti á erlendum mörkuðum milliliðalaust þ.e. kaupa eða selja hlutabréf, eða aðra fjármálagerninga,“ segir Sylvester.

Fleiri fylgi Fossum

Að sögn Sylvesters býst hann við því að fleiri íslensk fjármálafyrirtæki muni fylgja Fossum í því að tengjast erlendum mörkuðum. „Við hjá Nasdaq Nordic höfum verið með ákveðið Íslandsverkefni í gangi. Í því felst að tengja Ísland við erlenda markaði þar sem við byrjum á okkar eigin mörkuðum þar sem það er auðvelt fyrir innlenda aðila að tengjast þeim og ég á von á þeir muni gera það í kjölfarið. Fossar eru nú þegar komnir með aðgang að Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Það eru önnur íslensk fjármálafyrirtæki sem eru að íhuga það alvarlega að tengjast Nasdaq Nordic-mörkuðunum. Þessi fyrirtæki eru vissulega ekki fullkomlega heft frá því að eiga viðskipti á erlendum mörkuðum en ef þau ætla að gera það þurfa þau að fara í gegnum einn tvo eða jafnvel tíu milliliði. Það ferli er hins vegar dýrara, fyrirferðarmikið og almennt erfiðara þar sem þú bætir við milliliðum í stað þess að hafa beinan aðgang.“

Hver myndirðu segja að ábatinn af tengingu við erlenda markaði sé fyrir innlend fjármálafyrirtæki og fjárfesta. Gæti þetta einnig hjálpað íslenska markaðnum?

„Augljósi ábatinn er sá að það verður auðveldara að eiga viðskipti með hlutabréf og aðra fjármálagerninga á þessum mörkuðum. Ég vonast hins vegar til þess að afleidd áhrif verði þau að þetta  auki einnig flæði í hina áttina líka, með því á ég við að auka áhuga erlendra aðila á íslenska markaðnum þar sem samskiptin við erlenda aðila verða meiri. Ég hef nú þegar fundið fyrir auknum áhuga á íslenska markaðnum frá erlendum aðilum. Það eru langflestir meðvitaðir um að fjármagnshöftum hafi verið aflétt hér að mestu leyti.“

Á von á að veltan taki við sér

Eins og áður hefur verið fjallað um á síðustu misserum hefur veltan á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar verið með lægra móti það sem af er þessu ári. Að sögn Sylvesters þá á hann von á því að veltan muni taka við sér. „Ég er sammála því að seljanleiki og veltan á markaðnum getur verið meiri. Ég vonast til að þessi þróun sem er búin að eiga sér stað sé einungis töf við að markaðurinn komist aftur á þann stað sem flestir eru að vonast eftir og mér skilst að þetta eigi líka við á skuldabréfamarkaðinum.

Af þeim fundum af dæma sem ég hef átt á Íslandi síðustu tvö ár þá eru miklar en raunhæfar væntingar til þess að markaðurinn taki við sér á ákveðnum tímapunkti. Þeir sem ég hef rætt við áttu þó líklega von á því að það myndi gerast fyrr en ég finn þó fyrir töluverðri bjartsýni.  Góður vöxtur hefur verið í íslenska hagkerfinu og meiri en á hinum Norðurlöndunum. Á einhverjum tímapunkti mun það leiða til aukins áhuga á markaðnum,“ segir Sylvester.

Nánar er rætt við Sylvester í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .