Ég var alltaf á undan í skóla og ætlaði alltaf að verða rík með skjalatösku. Ég hef verið svo lengi á vinnumarkaði að það halda örugglega margir að ég sé sjötug,“ segir Andrea Róbertsdóttir sem síðastliðið haust tók við starfi framkvæmdastjóra Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).

„Hingað er ég komin og hvet konur til að koma um borð. Með skráningu í FKA ertu að fjárfesta í sjálfri þér. FKA er hreyfiafl, tengslanet og MAN-eflandi félagsskapur ólíkra kvenna um land allt og fjölgunin hefur aldrei verið meiri á einum mánuði segja tölurnar,“ segir Andrea og bætir við að hátt í sjötíu nýjar konur hafi komið í félagið í janúar.

Andrea segir ástæðu þess að hún sótti um sem framkvæmdastjóri FKA fyrst og fremst vera þá að hún hafi séð tækifæri til að láta góða hluti verða að veruleika.

„Það eru svo mörg tækifæri til að gera stórkostlega hluti á þessum tímapunkti. Það er að hefjast þetta rosalega ár þar sem mörg tímamót í jafnréttis- og mannréttindabaráttunni eru að eiga sér stað. Því til viðbótar finnst mér vera að myndast stemming fyrir fjölbreytileika og við erum komin með fullt af verkefnum og tækjum og tólum til að mæla og nýta sem tækifæri til að spyrna í botninn – og vera breytingin.“

Það er búinn að vera mikill sýnileiki í tengslum við hreyfiaflsverkefni FKA eins og Jafnvægisvonina og fjölmiðlaverkefnið okkar. Nú síðast fékk FKA Viðurkenningarhátíðin um daginn verðskuldaða athygli. Svo er jafnréttisviljinn að aukast en þetta er margþætt og ég fagna náttúrulega fjölguninni í félaginu sama hver skýringin er. Það eru svo spennandi tímar og svo mörg tækifæri. Jafnrétti er ekki bara breytan „kyn“, það snýst um svo mikla meira en það, eins og búsetu, aldur og margt fleira. Það er einhver veruleiki þarna úti sem sameinar konur og það er gefandi starf að vera framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu og vinna með öllum þessum konum,“ segir Andrea sem segist fagna stemningunni í félaginu. „Tengsl eru tækifæri og mér finnst mikið atriði að tala um tengslanet í þessu sambandi. Ef við ætlum að versla við konur, kjósa konur, ráða konur, mæla með konum þá þurfum við að þekkja konur og til þess er tengslanetið mjög mikilvægt.“

Jafnréttisglasið hálf fullt

Þegar blaðamaður biður Andreu um að líta yfir sviðið í jafnréttismálum almennt segist hún frekar vera með glasið hálf fullt heldur en hálf tómt.

„Mér finnst að það hafi orðið mikil vakning. Það hefur hins vegar margt breyst allt of hægt og það hefur verið bakslag og stöðnun í jafnréttismálum. Ég er búin að vera rosalega reið síðan ég kláraði kynjafræðina um árið en þegar ég varð miðaldra þá fannst mér ég verða líka meiriháttar og haft mikinn tíma og mörg ár til að velja mér viðbragð við bulli. Ég held það sé komin samstaða um að setja feðraveldið í líknandi meðferð út af því að fólk sér að við þurfum fjölbreytileika. Jafnréttismál eru ekki kvennamál heldur okkar allra.

Karlar vilja líka verja tíma með börnunum sínum og þetta fyrirvinnuhugtak er ofsalega erfitt fyrir karla, að karlar séu krumpaðir yfir því að vera með bullandi kröfur á sér gengur ekkert frekar. Ég lít þannig á að jafnréttisglasið sé hálf fullt og það sé allt morandi í tækifærum til þess að rétta af stöðu kynjanna sem ég tel að hafist með samtali og fræðslu.

Ef misréttið er mannanna verk þá er jafnréttið það líka. Ef við erum ekki á tánum þá kemur bakslag og stöðnun en með því að tala minna og gera meira trúi ég því að góðir hlutir muni eiga sér stað. Á meðan við erum jafnmörg á Íslandi og í einni götu í Kína þá veit ég að við getum orðið jafnréttisparadís. Mér finnst við eiga að vera landið sem allir miða sig við. Við getum sýnt að lýðræðið virki og sé fyrir heildina, það er næsta verk.“

Nánar er rætt við Andreu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .