Fækkun fólks á atvinnuleysisskrá virðist einkum bundin við þá sem hafa aðeins lokið grunnskólaprófi, en ríflega sextán sinnum fleiri í þeim hópi hafa farið af skránni en háskólamenntaðir. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.

Einstaklingum sem einungis hafa lokið grunnskólaprófi hefur fækkað um 1.036 milli ára. En í júní 2012 voru 4.319 á atvinnuleysisskrá sem einungis höfðu lokið grunnskólaprófi en í júní síðastliðnum voru þeir 3.283. Til samanburðar voru 1.609 á atvinnuleysisskrá með háskólamenntun í júní 2012 en 1.546 í júní sl. Fækkaði þeim því um 63 milli ára.

Að sögn Karls Sigurðssonar, sérfræðings hjá Vinnumálastofnun, má draga þá ályktun af fjölgun starfa innan mismunandi aldurshópa að láglaunastörfum hjá ungu fólki hafi fjölgað meira en betur launuðum störfum háskólamenntaðs fólks. Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði við HÍ, telur ferðaþjónustuna draga vagninn í atvinnusköpun. Hann segir að tækifæri virðist skorta fyrir menntað fólk.