Röðull frá Ölvisholti.
Röðull frá Ölvisholti.

Árstíðabundinn bjór sem kemur á markað um jól, páska og þorrann gefa litlu brugghúsunum ákveðin tækifæri. Slíkur bjór fær alltaf góða dreifingu hjá ÁTVR, að sögn Dagbjarts Ingvars Arilíussonar, eins eigenda brugghúsins Steðja. „Ef við ætlum að vera með í leiknum þá þurfum við að gera það,“ segir hann aðspurður um hvort brugghúsið muni herja á jól, þorra, páska og slík tilefni til að halda sölunni gangandi.

Örn Héðinsson, framkvæmdastjóri Ölvisholts, segir það einnig ljóst að þarna séu tækifæri til staðar fyrir minni brugghúsin þar sem þau eigi auðveldara með að framleiða lítið magn heldur en þau stóru. Í þeirra tilfelli hafi reyndar það ekki gengið upp í fyrra þar sem brugghúsið þurfti að verja sinni orku í að byggja upp lager af sínum vörutegundum þar sem litlar birgðir voru til staðar hjá viðskiptavinum þeirra. Hann segir aukinn kraft í þessari framleiðslu í ár eftir að Röðull og Skaði voru settir á markað í sumar og haust auk þess sem jólabjórsala í ár líti út fyrir að verða tvöfalt meiri en í fyrra.