Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) birtir reglulega tölur um framleiðni vinnuafls um allan heim. Sá mælikvarði sem oftast er notaður til að skýra framleiðni vinnuafls er verg landsframleiðsla deild með unnum vinnustundum vinnuafls. Síðustu tíu árin hafa verið sveiflukennd þegar framleiðni Íslands er borin saman við nágrannalöndin en samkvæmt nýjustu upplýsingum frá OECD erum við eftirbátar nágrannalanda okkar á Norðurlöndunum og evrusvæðinu hvað framleiðni vinnuafls varðar.

Vegum upp með vinnusemi

Nýlega gáfu Samtök iðnaðarins út sérblað um stöðu framleiðni í íslenskum iðnaði en þar sagði Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur samtakanna, að eitt stærsta sóknarfæri þjóðarinnar í náinni framtíð væri að auka framleiðni í hagkerfinu. Spurður um hversu mikið mark er takandi á tölum OECD um framleiðni vinnuafls segir Bjarni að engin sérstök ástæða sé fyrir því að rengja þær en að í fljótu bragði virðast þær vera í ósamræmi við há lífskjör okkar í samanburði við flest þau lönd sem OECD tekur til skoðunar.

„Ef þú bætir við tölum og upplýsingum um vinnutíma þá vegum við þetta upp með vinnusemi,“ segir Bjarni. „Það er í raun meira vinnumagn á bak við þetta. Það er einfalda skýringin. Það er alveg til umræða um aðrar tæknilegar skýringar á þessu. Eins og t.d. hversu mikil vinna fer fram utan vinnutíma hjá okkur. Hversu mikill tími það er sem fer frá vinnu þegar við erum á leiðinni í vinnuna. Á meðan við erum tíu mínútur að skutlast í vinnuna þarf fólkið í nágrannalöndunum að sitja í klukkutíma í lest margir hverjir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .