*

laugardagur, 24. júlí 2021
Innlent 31. maí 2021 10:49

Tækifærismennska og stjórnleysi taki við

Stjórnendur KEA gagnrýna harðlega stefnuleysi um þróun ferðaþjónustunnar þegar ferðamennska er að hefjast á ný eftir COVID.

Ingvar Haraldsson
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA.

Stjórnendur KEA gagnrýna íslensk stjórnvöld harðlega fyrir stefnuleysi í málefnum ferðaþjónustunnar, nú þegar greinin er að vakna úr dvala eftir heimsfaraldurinn. 

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA og Eiríkur Haukur Hauksson, stjórnarformaður KEA, segja að enn skorti sýn á þróun ferðaþjónustunnar í sameiginlegu ávarpi nýbirtri í ársskýrslu KEA. „Svo virðist sem tækifærismennska og stjórnleysi eigi að taka við aftur. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra og við eigum að vera búin að læra eitthvað um skipulag og þróun þessarar atvinnugreinar,“ segja Halldór og Eiríkur.

KEA hafi lagt lóð á vogarskálar varðandi uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu á nærsvæði sínu með það að markmiði að opna nýja ferðamannastrauma, til að mynda með millilandaflugi til og frá svæðinu. „Svo virðist sem engin sérstök áhersla muni verða á dreifingu ferðamanna um landið né opnun á annarri fluggátt inn í landið. Slíkt er óskynsamlegt í ljósi heildarhagsmuna greinarinnar til lengri tíma litið,“ segja þeir í ávarpinu.

Afkoman batnaði í faraldrinum

Í skýrslunni kemur fram að heimsfaraldurinn hafi litað árið hjá KEA enda sé um fjórðungur eigna samvinnufélagsins í ferðaþjónustu og tengdum greinum.

„Sem betur fer hafði mikil innlend ferðamennska mildandi áhrif á flest ferðaþjónustuverkefni KEA sem hafa haldið sjó án fjárhagsstuðnings eigenda hingað til. Ástandið hefur haft áhrif langt út fyrir ferðaþjónustuna og hafa sum verkefni KEA sannanlega fundið fyrir því. Þrátt fyrir allt hefur blessunarlega tekist betur til með verkefni félagsins en gera hefði mátt ráð fyrir. Við erum ekki komin fyrir vind þó horfurnar hafi batnað,“ segir í ávarpinu.

Rekstrarniðurstaðan sé viðunandi miðað við aðstæður en félagið hagnaðist um 326 milljónir króna á síðasta ári miðað við 81 milljóna króna hagnað árið 2019. Mestu munar þar um hækkun á gangvirði fjáreigna um 404 milljónir króna miðað við 117 milljónir árið áður. Alls hækka tekjur úr 280 milljónum í 526 milljónir á milli ára. Fjögur stöðugildi eru hjá félaginu og nam launakostnaður 94 milljónum króna.

Ásprent Stíll sem KEA átti hlut í í þrot fyrr á þessu ári. Í ársskýrslunni segir að rekstur Ásprents hefði „gengið erfiðlega síðustu misseri í hraðminnkandi prentheimi.“ Tilraunir til endurfjármögnunar gengu ekki eftir og því var félagið lýst gjaldþrota. Starfsemin hefur að hluta verið endurreist af hálfu Prentmets Odda sem keypti eignir úr þrotabúinu.

Jarðböðin verðmætasta eignin

Eignir KEA í árslok 2020 námu 8,4 milljörðum króna en voru 8,1 milljarður í árslok 2019. Þá nam eigið fé 8,2 milljörðum en skuldir 195 milljónum króna.

Af eignum KEA eru um 1,8 milljarðar í skuldabréfum en þar af um 1,6 milljarða í ríkisskuldabréfum, um 4,8 milljarða í hlutabréfum og nær 1,1 milljarður í fasteignum. KEA á eignarhlut í fjölda félaga en 44% hlutur í Jarðböðunum er verðmætasta einstaka eignin sem metinn er á tvo milljarða króna. Þá á félagið meðal annars 5,5% hlut í Samkaupum sem metinn er á 469 milljónir króna. Meðal annarra félaga sem KEA á stóran hlut í eru Ferro Zink, Kælismiðjan Frost, Norlandair, N4, Sparisjóður Höfðhverfinga og Sparisjóður Suður-Þingeyinga. 

Stikkorð: KEA ferðaþjónusta