Landspítalinn á tvö geislatæki. Annað þeirra var keypt árið 1995 en hitt fyrir átta árum. Þau hafa bilað tíu sinnum á síðastliðnum þremur árum. Þrátt fyrir það hefur með hjálp og eftirliti tæknimanna á Landspítalanum tekist að halda þeim í gangi í meira en 99% af virkum tíma.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar um tækjakost Landspítalans. Svarið var birt í dag. Ásmundur spurði m.a. að því hvort annar mikilvægur tækjabúnaður sé í sambærilegu ástandi.

Í svari ráðherra kom fram að talsvert af tækjabúnaði spítalans sé orðinn gamall, að hluta til úreltur og geti það verið erfiðleikum bundið að fá varahluti. Þetta eigi jafnt við um smá og stór tæki sem og búnað af ýmsum toga.

Stjórnendur Landspítalans lögðu í byrjun september fram fjárfestingaráætlun um endurnýjun á búnaði sem áríðandi er að endurnýjaður sé hið fyrsta. Áætlunin hljóðar upp á endurnýjum tækja upp á einn milljarð króna á næstu árum.

Þá spurði Ásmundur hvort ríkisstjórnin hafi leitað til lífeyrissjóðanna um fjármögnun tækjabúnaðar fyrir spítalann. Í svari ráðherra kom fram, að ekki hafi verið leitað til lífeyrissjóðanna.