Flugmálastjórn Bandaríkjanna, FAA, hyggst slaka á reglum sem í dag banna flugfarþegum að nota nær allan tækjabúnað þegar flogið er í lágflugi. Breytingar á regluverkinu munu heimila farþegum að nota mörg raftæki við flugtak og lendingu, en í dag gilda strangar reglur um að notkun á öllum raftækjum eru bönnuð þar til ákveðinni flughæð hefur verið náð. Farsímanotkun verður þó áfram óheimil.

Wall Street Journal greinir frá fyrirhuguðum breytingum, sem enn eru til umræðu hjá flugmálastjórninni. Reglurnar hafa að mestu verið óbreyttar frá 7. áratug síðustu aldar. Breytingum er ætlað að koma til móts við þá miklu framþróun í tæknimálum sem hafa orðið síðan þá.

Bent er á að stór hluti farþega virða reglurnar að vettugi í dag. Vísað er í nýlega rannsókn sem sýndi að nærri þriðjungur farþega hafi í minnst eitt skipti gleymt að framfylgja reglum um að slökkva á öllum raftækjum.