Vinnsla hófst í morgun í nýju hátæknivinnsluhúsi Samherja á Dalvík. Um sé að ræða eitt fullkomnasta vinnsluhús í heiminum í bolfiskvinnslu. Er vinnsluhúsið raunar það eina sinnar tegundar vegna þeirrar tækni og þess búnaðar sem er í því.

Framkvæmdir og þróun á búnaði í húsinu, sem er 9.000 fermetrar, hafa staðið yfir undanfarin fjögur ár. Um er að ræða meiriháttar fjárfestingu sem mun skipta miklu máli fyrir samfélagið á Dalvík og sjávarútveginn á Íslandi almennt. Heildarfjárfesting nemur um sex milljörðum króna og er um helmingur fjárfestingarinnar vegna tækja og hugbúnaðar.

Í húsinu eru vinnslulínur frá Völku, flökunarvélar frá Vélfagi, hausarar frá Baader Ísland, lausfrystar frá Frost, stöflunarróbótar og róbót sem losar kör frá Samey. Að auki er búnaður frá Skaganum 3X, Marel, Raftákn, Slippnum og fleiri íslenskum fyrirtækjum.

Tækin í húsinu og hugbúnaðurinn sem stýrir þeim er afrakstur þróunarsamstarfs Samherja og fyrirtækjanna sem framleiddu þau. Í reynd er um að ræða nýjar, sérhæfðar lausnir sem byggja á nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Stjórnendur Völku og annarra sem þróuðu tækin í húsinu, binda vonir við að húsið muni nýtast við markaðssetningu á tækjunum, ekki síst erlendis. Munu erlendir gestir heimsækja húsið á næstu mánuðum og árum til að skoða tækin með hugsanleg kaup í huga frá þessum íslensku hátæknifyrirtækjum.

„Vinnslubúnaðurinn í þessu húsi er svo til allur nýr. Hönnun og útfærsla á mörgum þáttum starfseminnar eru einnig ný af nálinni. Í þessu húsi erum við að gera eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður enda göngum við lengra í sjálfvirknivæðingu, sem miðar meðal annars að því að létta störf starfsfólks, í nýja húsinu en þekkst hefur í fiskvinnslu. Við hönnun hússins var horft sérstaklega til þess að gera allan aðbúnað starfsfólks eins og best verður á kosið. Í því sambandi má nefna lýsingu og hljóðvist sem er sérstaklega hönnuð með það fyrir augum að auka þægindi. Við lítum á daginn í dag sem hátíðardag fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenskan iðnað", segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja í tilkynningu.

Eins og áður segir hófst vinnsla í húsinu í morgun. Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, segir að hún hafi farið vel af stað.

„Þetta gekk betur en maður þorði að vona enda er alltaf krefjandi að taka nýjan búnað í notkun. Það mun taka tíma að þjálfa starfsfólkið sem er að læra á nýja tækni en við erum bjartsýn á að það gangi vel. Hér eru allir á tánum,“ segir Gestur.