„Tækni er orðin meiri hluti af lífsstíl fólks en áður,“ segir Snæbjörn Ingólfsson, lausnasérfræðingur hjá Nýherja. Hann bendir á að nú streymi á vinnumarkað starfsfólk sem margt geri kröfu til þess að velja eigin tölvubúnað og snjalltæki til vinnu í stað þess að fá úthlutað tilteknu tæki.

Haft er eftir honum í tilkynningu frá Nýherja að greiningarfyrirtækið Gartner geri ráð fyrir að 38% fyrirtækja muni hætta að afhenda starfsfólki staðlaðan búnað til vinnu árið 2016. Þetta eigi einkum við fyrirtæki í Bandaríkjunum. Þess í stað geti fólk valið þann búnað sem það kýs sér.

Snæbjörn segir þetta heita „Bring Your Own Device-stefnu“ (BYOD) og eigi hún að koma til móts við þarfir starfsfólks.

„Það er hins vegar ekki nóg að innleiða stefnu að þessu tagi. Öryggismál þurfa að vera í forgrunni. Komið hefur í ljós samkvæmt erlendum könnunum að þó að fyrirtæki innleiði BYOD stefnu hafi mörg þeirra ekki hugað að örygginu,“ segir hann og bendir á að mörgum tilvikum séu tæki starfsfólk ekki skönnuð fyrir óværum né sé dulkóðun fyrir hendi.

Fjallað verður um þessa þróun hjá fyrirtækjum á ráðstefnu Nýherja, sem verður haldin á Akueyri 3. apríl næstkomandi. Þar verður fjallað um allt sem snýr að upplýsingatækni; öryggislausnir, umhverfisvænni prentun, útstöðvar og Windows 8.1.