*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 20. október 2021 19:41

Tæknin að bylta dagvörumarkaði

Ásta S. Fjeldsted hefur lagt höfuðáherslu á stafrænar lausnir frá því að hún tók við sem framkvæmdastjóri Krónunnar fyrir ári síðan.

Sigurður Gunnarsson
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar
Aðsend mynd

Krónan hefur sett þróun stafrænna lausna í forgang á síðustu misserum. Matvöruverslunin kynnti nýverið viðskiptalausnina „Skannað og skundað“ sem er hluti af Snjallverslunarappi Krónunnar og gerir viðskiptavinum kleift að komast hjá afgreiðslukössum með því að skanna sjálfir inn vörur á meðan gengið er um verslunina og greiða síðan með appinu áður en gengið er út. Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að lausnin sé liður í þeirri vegferð fyrirtækisins að bjóða upp á samhæfða upplifun viðskiptavina, hvort sem er í raun- eða stafrænum heimi.

„Tæknin er að umbreyta íslenskum dagvörumarkaði og segja má að fjórða iðnbyltingin sé að ryðja sér til rúms af fullum krafti í þessum geira sem snertir daglegt líf allra. Stafræn þekking er sífellt að verða mikilvægari í verslunarrekstri, þar liggja gríðarleg tækifæri til vaxtar, hagræðingar og bættrar þjónustu við viðskiptavini. Við völdum að halda þróun tækninnar innan Krónunnar en erum um leið í öflugu samstarfi við innlenda aðila eins og Reon og Edico. Lykilatriði er að halda þróuninni nálægt sér, taka stutta og skilvirka spretti, prófa stíft með notendum og bregðast hratt við því sem þarf að laga,“ segir Ásta og nefnir Skannað og skundað sem dæmi.

Þar hafi reynst dýrmætt að vera í beinum samskiptum við viðskiptavini við prófanir á lausninni í verslun Krónunnar í Lindum í Kópavogi. Ásta hefur sjálf staðið vaktir með starfsmönnum við að aðstoða og ræða við viðskiptavini um nýja kerfið. Til að byrja með hefur Skannað og skundað einungis verið tekið í notkun í Krónu-versluninni í Lindum, en lausnin verður innleidd í fleiri verslanir á næstunni. Nú þegar nota um 9% viðskiptavina í Lindum þessa nýjung.

Um er að ræða viðbót við Snjallverslun Krónunnar sem ýtt var úr vör í mars 2020. Markmiðið í upphafi var að bjóða vörur til heimsendingar í gegnum app í miðjum faraldri – en nú hefur stefnan verið sett á svokallaða „omnichannel“ nálgun að sögn Ástu. Það felst í að þróa hinn stafræna heim Krónunnar í takt við þarfir og væntingar viðskiptavina um upplifun og þjónustu, ásamt því að þessi vettvangur sé aðgengilegur á ólíkum tækjum, hvort sem það eru símar, spjald-, far- eða borðtölvur. Hingað til hefur Snjallverslunin aðeins verið í boði í snjallsímum en stefnt er á að opna á hana í vöfrum (e. browser) um áramótin þegar ný vefsíða Krónunnar fer í loftið.

„Við horfum til þess að heimur stafrænnar verslunar er það sem komið er og koma skal. Krónu-heimurinn á að einfalda viðskiptavinum okkar lífið í daglegum innkaupum, allt frá því þegar þeir byrja að huga að skipulagningu matarinnkaupa í sófanum heima eða á vinnustað – yfir í að fá vörurnar í hendurnar.“

Ásta segir frá því að mikil vinna hafi verið lögð í að byggja upp ítarlegt vöruupplýsingasafn fyrir allar vörur í Krónunni, sem er nú aðgengilegt í gegnum Snjallverslunina. Ítarupplýsingarnar auðveldi viðskiptavinum ákvarðanatöku og leitina að sérflokkum á borð við vegan, glútenfrítt, lífrænt eða íslenska framleiðslu. Markmiðið er að gera innkaupin einstaklingsmiðaðri þar sem kaupsaga og fyrir fram ákveðnar sérflokkasíur geti bætt upplifun og einfaldað viðskipavinum lífið. Bættar vöruupplýsingar auki verðvitund og geri samanburð milli verslana og vörutegunda auðveldari.

Finna má viðtalið við Ástu í heild sinni í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað um það sem bar á góma í aðalmeðferð í máli Lífeyrissjóðs bankamanna gegn aðildarfyrirtækjum og ríkinu.
  • Forseti ASÍ segir launþega þurfa umsamdar launahækkanir svo laun haldi í verðhækkanir.
  • Framkvæmdastjóri The Reykjavík Edition hótelsins í Austurhöfn er tekinn tali.
  • Hagur útivistarvöruverslana vænkaðist verulega í faraldrinum.
  • Farið er yfir fyrirhugaðar afléttingar samkomutakmarkana og þær bornar saman við nágrannaþjóðir.
  • Fjallað er um sjóðinn Kríu og fjárfestingu til nýsköpunar.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs og Óðins sem fjalla um sæstreng.