Þetta er mat Herberts Bjarnasonar, tæknistjóra skipa hjá Brim, sem var gestur í umræðuþættinum Orkuskipti í fiskiskipum – hvað þarf til? sem  Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi stóðu fyrir í síðustu viku.

Í máli Herberts kom fram ísfisktogarar Brims noti um 8 þúsund lítra af olíu á dag þannig að í hefðbundnum fimm daga veiðitúr er eyðslan um 40 þúsund lítrar. Frystitogarar séu með á bilinu 400 til 700 þúsund lítra af olíu í tönkum. Þeir noti á bilinu 10 til 12 þúsund lítra á sólarhring eða 300 til 360 þúsund lítra í 30 daga veiðiferð.

Hann sagði að orkuskipti yfir í rafmagn í stóru skipunum séu ekki raunhæf. Tæknin til að bera þá orku sem skipin þurfa sé einfaldlega ekki til staðar. Hann nefndi sem dæmi, að væri tæknin til staðar væri orkuþörfin til að hlaða rafgeyma ísfisktogara á tólf tímum að aflokinni fimm daga veiðiferð, svipuð því og ef 15 til 16 hundruð einbýlishús bættust skyndilega inn á raforkukerfið. Væri til tækni fyrir frystitogara sem dygði til að knýja hann með rafmagni í 30 daga veiðiferð væri álagið við hleðslu rafgeymanna svipað því og heilt álver yrði sett inn á kerfið.

Herbert telur að um fyrirsjáanlega framtíð verði ekki hægt að knýja stóru fiskiskipin á rafmagni einu saman. En á minni fiskibátum og skipum sem sigla styttri vegalengdir á milli tveggja staða sé rafvæðingin raunhæf lausn.

Aðrir orkugjafar

Hann sagði vélaframleiðendur vinna með aðrar lausnir eins og lífdísil, ammóníak, LNG og metanól. Nýlega sé farið að prufukeyra vélar sem knúnar eru með þessum orkugjöfum. Úrlausnarefnið sé hins vegar það að orkuinnihald þessa eldsneytis, að lífdísil undanskildum, er helmingi minna en í olíu sem þýði þá um leið að skipin þurfi að bera helmingi meira magn. Einnig þurfi að horfa til þess að sá orkugjafi sem verði ofan á verði ekki takmörkuð auðlind heldur aðgengileg alls staðar um langan tíma því nýtt fiskiskip sé fjárfesting til 20-30 ára.

Ný véla- og skrúfutækni og skipahönnun hefur leitt til umtalsvert minni olíunotkunar nýrra skipa. Herbert segir eitthvert svigrúm til eldsneytissparnaðar með tæknilegum uppfærslum á eldri skipum en í fæstum tilfellum skili fjárfestingar við slíkar breytingar miklum ávinningi. Það sé m.ö.o. hæpið að sparnaður vegna minni olíunotkunar dekki kostnaðinn við breytingarnar. Umtalsvert hafi tekist að spara olíu með landtengingum og með því að tengja hitaveitu inn á skipin í landlegum. Einnig sé verið að nýta svokallaðan glatvarma eins og hægt er um borð í skipunum.