Robert C. Merton, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1997 fyrir framlag sitt til verðlagningar á afleiðum, segir að gervigreind eigi enn afskaplega langt í land með að geta beitt dómgreind við lausn á vandamálum. Sjálfur hefur Merton helgað störfum sínum á undanförnum árum í að hjálpa ýmsum þjóðum að leysa þann vanda sem stafar af lífeyriskerfum um heim allan.

Það hlýtur að vera hægara sagt en gert að nálgast það verkefni að leysa vandamál lífeyriskerfa. Hvernig nálgast þú slíkt vandamál?

„Að endurhanna heilt lífeyriskerfi lands er mjög stórt verkefni sem þú vilt ekki þurfa að ráðast of oft í. Mín nálgun, sem virkar jafnvel betur í alvöru heldur en samkvæmt fræðunum, byrjar á að setja mjög skilmerkilega fram hvað þarf að gera. Hér er lífeyriskerfið tekið sem dæmi en þetta virkar í hvaða verkefni sem er. Þú setur saman hóp af fólki sem á að hanna besta lífeyriskerfi sem það getur án nokkurra skilyrða og takmarkana á borð við reglugerðir og skatta. Ekki það að þau eigi að brjóta þessar reglur, en þú byrjar á að gera þitt besta án hindrana til að komast á stað sem ég kalla „Nirvana“ (innsk. blaðamanns: í þessari merkingu er það eins konar himnaríki, hinn fullkomni staður til að vera á), þar myndum við elska að vera. Næsta skref er að átta sig á því hvernig lífeyriskerfið er í dag, þannig að við erum með tvo vel skilgreinda punkta. Svo þurfum við að finna út hvernig við komumst frá þeim stað sem við erum á núna til þess staðar þar sem við viljum vera. Við munum líklega ekki komast alla leið þangað, en við höfum allavega einhvers konar leiðarvísi og skipulag sem við vinnum eftir. Við gerum okkar besta fyrir þá sem fara á eftirlaun í dag en háð þeim skilyrðum að okkur ber líka skylda að fjarlægja þær hömlur sem koma í veg fyrir að við komumst á betri stað. Í því felst oft að ræða við þá sem semja reglurnar, sem er talsvert auðveldara þegar þú getur sýnt þeim „Nirvana“ og útskýrt það fyrir þeim. Við höfum bæði sama markmið, að fólk hafi það sem best í ellinni, þannig að þegar ég segi þeim og sýni hvaða reglugerðir koma í veg fyrir að við komumst til „Nirvana“, þá hef ég trú á því að þau muni breyta reglunum. Það skiptir miklu máli að geta sýnt þeim þetta svart á hvítu, ég get ekki bara sagt þeim hvað mér finnst vera best og ætlast til að þeir treysti mér.“

Þú hefur greint frá því að þú ert ekki hlynntur þeirri aðferðafræði að kanna hvernig aðrir gera hlutina og heimfæra þær aðferðir sem hafa virkað best annars staðar (e. best practice)?

„Það er mjög algengt að stjórnvöld og stórfyrirtæki kynni sér hvernig aðrir gera hlutina víða um heim og taki upp þá aðferðafræði sem hefur virkað best. Að mínu mati er það ekki nógu gott, því það segir sig sjálft að það besta sem hefur verið gert annars staðar er eitthvað sem hefur verið gert áður. Þetta er arfleifð, þetta er til nú þegar. Ef þetta er til, þá er þetta hluti af fortíðinni. Þetta er eins og að keyra bíl eftir þjóðveginum og horfa bara í baksýnisspegilinn. Það er kannski í lagi á meðan vegurinn fyrir framan mig er nákvæmlega eins og vegurinn fyrir aftan mig, en um leið og eitthvað breytist er ég í ansi vondum málum. Framtíðin verður ekkert eins og fortíðin, alls konar hlutir munu gerast sem gerbreyta heiminum, þannig að þegar þú býrð eitthvað til skaltu ekki bara horfa á það sem er til nú þegar. Hugsaðu hvað þú getur gert með alla þá vitneskju sem þú hefur. Sem dæmi, ef þú hefðir verið beðinn fyrir 15-20 árum að hanna frá grunni símakerfi í einhverju landi, þá hefðirðu ekki horft til Bandaríkjanna með sína gömlu símastaura út um allt og hugsað: þetta er besta símakerfið í heimi í dag þannig að við skulum setja upp símastaura. Þú værir algert flón að notfæra þér ekki þá stafrænu tækni sem nú væri til staðar, jafnvel þótt hún hefði ekki verið notuð áður í þessum tilgangi.“

Nánar er fjallað um málið í Fjórðu iðnbyltingunni, nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar og Viðskiptablaðsins. Hægt er að óska eftir áskrift að Frjálsri verslun með því að senda tölvupóst á netfangið: [email protected].