Hlutafjárútboði Play lauk í gær, þar sem félagið bauð út hluti að andvirði ríflega fjögurra milljarða krína. Eftirspurn reyndist áttföld en alls bárust tilboð upp á 33,8 milljarða króna. Birgir Jónsson ræddi væntingar til útboðsins og rekstur félagsins í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn, sama dag og útboðið hófst.

„Tæknin er algjört lykilatriði í rekstri okkar. Það felst mikið forskot í því að geta nýtt tæknina og ekki síst þegar maður getur byggt hana upp frá grunni og þannig valið bestu kerfin, skrifað bestu lausnirnar og verið alveg laus við að vandræðast með einhver „legacy"-kerfi. Í dag er líka hægt að nýta gögn miklu meira en fyrr á árum og alls lags bottar eru til staðar sem gera manni kleift að fylgjast með öllum verðbreytingum meðal flugfélaga sem er algjör leikbreytir (e. game changer). En það þarf auðvitað að fjárfesta í þessu, vera með kerfi sem ráða við þetta og gagnalæst starfsfólk. Við reynum eftir fremsta megni að nýta sjálfvirkni, við erum til dæmis ekki að byggja upp stóra deild til þess að þjónusta ferðaskrifstofur, heldur látum við þær afgreiða sig sjálfar í kerfunum okkar. Með því að nýta tæknina þurfum við aðeins örfáa starfsmenn til að sinna sömu umsvifum og hefðu krafist tuga starfsmanna fyrir örfáum árum. Í því felst ótrúlega mikill sparnaður í því hálaunaumhverfi sem við búum við og áhersla á tæknilausnir er því algjört lykilatriði í rekstrinum," segir Birgir.

Auðvelt að afvegaleiðast Þegar fyrirtæki líta fram á veginn beinast sjónir yfirleitt að því hvað eigi að gera næst en það er ekki síður mikilvægt að skoða hverju ætti að hætta. Aðspurður segir Birgir að flugfélög ættu helst að hætta að reyna að gera allt fyrir alla.

„Flugfélög, og raunar öll fyrirtæki, ættu bara að einbeita sér að því sem þau eru góð í. Mörg flugfélög hafa að mínu mati látið afvegaleiðast í annan rekstur en kjarnarekstur sinn, sem eykur flækjustigið, minnkar sveigjanleika, eykur kostnaðarfótinn og tekur fókus af stjórnendum. Í svona bransa eins og fluginu, sem er ofboðslega kvikur með litla margínu og mikla veltu, skiptir alveg rosalega miklu máli að vera með skýr markmið. Við hjá Play leggjum mikið upp úr því að vera með einfalda nálgun og ætlum okkur ekki að reyna að gera allt fyrir alla."

Birgir hlær þegar hann er spurður hverju hann hafi helst áhyggjur af í rekstri flugfélagsins, enda hefur hann verið ófeiminn við að segja frá því hve mikið hann hræðist flugrekstur.

„Flugrekstur er erfiðasti rekstur sem þú getur verið í, hann er svo ofboðslega kvikur og það eru svo rosalega margar breytur sem maður hefur ekki stjórn á, eftirspurnin til dæmis, svo ég tali nú ekki um hér á Íslandi með gjaldmiðlana í ofanálag. Þannig að ég hef ekkert stórar áhyggjur af einhverju einu nema þá helst hvort teymið sé ekki örugglega fókuserað á réttu boltana. Það er svo auðvelt að afvegaleiðast í fókus, þannig að það hefur alltaf reynst mér vel að vera bara með einfalda nálgun. Ég er alltaf að hamra á sömu einföldu hlutunum núna, til dæmis einingakostnaðinum (CASK) og starfsmönnum per flugvél. Þetta eru svona þrír eða fjórir lykilmælikvarðar sem þurfa að vera í lagi til þess að maður viti að maður hafi ekki villst af leið og geti farið þokkalega rólegur að sofa eftir daginn."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .