T ækninýjungar og aukin notkun fyrirtækja á reikniritum kalla á breytingar á ákvæðum samkeppnislaga sem lúta að ólögmætu samráði fyrirtækja. Það mat kemur fram í meistararitgerð Arnars Heimis Lárussonar, lögfræðings hjá Magna lögmönnum, til prófs í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Að mati höfundar innihalda núgildandi lög gloppur sem kunna að verða raunverulegt vandamál í náinni framtíð með áframhaldandi tækniþróun. Þannig telur hann mikilvægt að huga að álitaefnum sem kunni að vakna og tryggja að löggjöf stuðli með skilvirkum hætti að virkri samkeppni þó svo að tækniþróun hafi almennt jákvæð áhrif fyrir neytendur.

Yfirskrift ritgerðarinnar er „Tækniþróun og samráð reiknirita“, en í henni er þeirri spurningu velt upp hvort úrbóta sé þörf í ljósi stórra stökka í tækninni, á ákvæðum samkeppnislaganna sem leggja bann við samráði fyrirtækja sín á milli.

Í ritgerðinni er hugtakið reiknirit notað um hugtakið „algorithm“ og bent á að notkun þeirra veki upp ýmis álitaefni sem tengjast samkeppnisrétti. Umfjöllun ritgerðarinnar var þó afmörkuð við áhrif gervigreindar, einkum reiknirita, á samræmda hegðun fyrirtækja.

Sem kunnugt er brúka fjölmörg fyrirtæki verðákvarðandi reiknirit til að taka ákvörðun um verðlagningu vara sinna. Nægir í því samhengi að minnast á akstursþjónustuna Uber, sem og flest flugfélög heimsins. „Reikniritin veita fyrirtækjum möguleika til að safna markaðsupplýsingum og greina þær á hraða sem er lifandi mönnum ómögulegt. Með aukinni þróun má telja að notkun reiknirita færist frá stafrænum mörkuðum á hefðbundnari markaði,“ segir Arnar Heimir í ritgerð sinni.

Hætta á að samráð komist á

„Hver sem upprunalegur tilgangur fyrirtækja er með notkun reiknirita í starfsemi sinni er viss hætta á að slík notkun leiði til þess að líklegra er að samráð komist á og beri sig til lengdar,“ ritar Arnar Heimir. Birtist það til að mynda í því að auðveldara verður fyrir keppinauta að fylgjast með því hvort sameiginlegri stefnu er fylgt, auk þess að hættan eykst á svokölluðu þegjandi samráði, með auknu gagnsæi markaða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .