Fjögur af stærstu tæknifyrirtækjum heims, Apple, Google, Intel og Adobe, hafa boðist til að greiða 415 milljónir (andvirði um 55 milljarða króna) dala í bætur vegna meintra samkeppnislagabrota þeirra. Í dómsmáli er krafist bóta fyrir hönd 64.000 starfsmanna fyrirtækjanna fjögurra, en þeim er gefið að sök að hafa sammælst um að "stela" ekki starfsmönnum hvert af öðru. Með því hafi þau minnkað líkur á því að starfsmönnum væru boðin betri störf annars staðar.

Í dómsmálinu eru fyrirtækin krafin um þriggja milljarða dala bætur, sem er meira en fyrirtækin eru tilbúin að greiða. Fyrra sáttatilboð fyrirtækjanna hljóðaði upp á 324,5 milljónir dala, en dómari í málinu hafnaði því af því að honum þótti það tilboð of lágt.

Málshöfðun starfsmannanna byggir aðallega á tölvupóstsamskiptum stjórnenda fyrirtækjanna, en þar má t.d. sjá Eric Schmidt, fyrrverandi forstjóra Google, skrifa Steve Jobs, þáverandi forstjóra Apple, og segja honum að starfsmaður Google, sem reynt hafði að krækja í starfsmann Apple, yrði rekinn.