Tæknifyrirtækin Philips, Samsung og Infineon hafa verið sektuð af framkvæmdastjórn ESB um samanlagt 138 milljónir evra, eða 21 milljarð íslenskra króna, fyrir verðsamráð.

Tæknirisarnir höfðu samráð um verð á örflögum sem framleiddar eru fyrir snjallsíma og gerðu samninga sín á milli um skiptingu markaðarins. Infineon var sektað um 82,8 milljónir evra, Samsung um 35,1 milljón evra og Philips um 20,2 milljónir evra.

Joaquin Almunia, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, segir að fyrirtæki sem viðhafi ólöglegt verðsamráð á kostnað neytenda megi alltaf búast við því að slík athæfi hafi afleiðingar. Þá telur hann að fyrirtækin hafi vel gert sér grein fyrir að athafnir þeirra væru ólöglegar.

Fyrirtækin neita sök og hyggjast áfrýja ákvörðuninni.