Íslenska tölvuleikjafyrirtækið 1939 Games hefur lokið tveggja milljóna dollara hlutafjáraukningu, sem samsvarar tæplega 220 milljónum króna. Þrjú fyrirtæki standa að fjárfestingunni í félaginu, kínverski tæknirisinn Tencent, finnski fjárfestingarsjóðurinn Sisu Game Ventures og íslenski fjárfestingarsjóðurinn Crowberry Capital.

„Það er mikil viðurkenning á okkar starfi að fá svona öfluga fjárfesta að borðinu sem hafa gífurlega þekkingu á þessu sviði og geta stutt enn frekar við það sem við erum að gera,“ segir Ívar Kristjánsson, framkvæmdastjóri 1939 Games. Unnið er að útgáfu fyrsta tölvuleik fyrirtækisins sem ber nafnið KARDS.

„Þetta fjármagn á að duga til að koma leiknum út en við erum að ráða í þær stöður sem þarf til að klára leikinn,“ segir Ívar.

Eitt stærsta fyrirtæki heims

Tencent er meðal tíu stærstu skráðu fyrirtækja heims. Markaðsvirði félagsins er tæplega 400 milljarðar dollara, um 42.000 milljarðar króna. Tencent á meðal annars kínverska samskiptamiðilinn WeChat og hefur fjárfest í fyrirtækjum á borð við Snapchat, Spotify, Riot Games og Tesla. Tencent hefur áður fjárfest í íslenskum töluleikjaiðnaði en það var meðal stærstu hluthafa í Plain Vanilla sem gaf út tölvuleikinn Quiz Up.

Ívar segir þá sem koma að Sisu Game Ventures vera öfluga einstaklinga sem hafi stofnað og byggt upp farsæl leikjafyrirtæki og svo síðar selt. „Þeir eru mjög vel tengdir í leikjabransanum og mjög gott að fá þá til liðs við okkur. Þeir hafa strax tengt okkur við mikilvæga einstaklinga og fyrirtæki sem hafa nýst okkur vel,“ segir Ívar.

„Crowberry Capital er öflugur og framsýnn sjóður en honum stýra konur sem eru búnar að vera lengi í þessum bransa og þekkja vel inn á þetta íslenska umhverfi og hafa hjálpað fyrirtækjum að vaxa. Þannig að þetta er góð blanda.“

Yfir tuttugu þúsund sótt um að spila

KARDS er nú í svokölluðum Alpha prófunarfasa. Fyrirtækinu hafa borist yfir tuttugu þúsund umsóknir í Alpha prófun og um 100 umsóknir bætist við á dag að sögn Ívars. Stefnt er að því að hefja Beta prófunarfasa í desember og að leikurinn komi formlega út á öðrum ársfjórðungi næsta árs.

Leiksvið KARDS er síðari heimsstyrjöldin þar sem leikmenn mætast í einvígjum sem taka að jafnaði 5-10 mínútur. Ívar segir KARDS vera svokallaðan multi-platform DCCG leik sem stendur fyrir Digital Collectible Card Game og má þýða sem rafrænan safnkortaspilaleik sem verður hægt að spila á tölvum og í snjalltækjum. Áætlað er að um 45 milljónir manna spili svona leiki í hverjum mánuði og að þessi tegund leikja skili yfir 155 miljörðum króna í tekjur á þessu ári.

Ívar og bróðir hans, Guðmundur Kristjánsson, stofnuðu 1939 Games árið 2015 eftir að hafa fengið frumherjastyrk frá Tækniþróunarsjóði. Ívar var einn þriggja stofnenda CCP og var framkvæmdastjóri fyrirtækisins þegar EVE Online kom út árið 2003. Ívar vann alls í 17 ár hjá CCP og Guðmundur í 12 ár.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um stöðu póstþjónustu í landinu.
  • Viðtal við forsætisráðherra um stöðu kjarasamninga.
  • Nánar fjallað um vanda flugfélaganna.
  • Úttekt á skuldabréfamarkaðnum.
  • Viðtal við Úlfar Steindórsson, stjórnarformann Icelandair.
  • Umfjöllun um auknar lánveitingar á bílalánum.
  • Óðinn skrifar um afskipti ríkisins af ferðaþjónustu.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um gyðingaandúð.