Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X, fékk viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins á fimmtudaginn. Fyrirtækið er að umbylta matvælaiðnaði, sérstaklega í sjávarútvegi, með nýjum og framsæknum lausnum.  Fyrirtækið sérhæfir sig í kæli- og vinnslutækni og framleiðir í dag íslaus kælikerfi, alsjálfvirk lestarkerfi fyrir fiskveiðiskip og verksmiðjur fyrir vinnslu á uppsjávarfiski. Skaginn 3X er hluti af Knarr Maritime, sem stefnir að því að búa til tækniskip framtíðarinnar.

Síðasta vor tóku nokkur fyrirtæki sig saman og stofnuðu Knarr Maritime. Auk Skagans 3X kemur Nautic að verkefninu sem og Kælismiðjan Frost, Brimrún, Naust Marine og verkfræðistofan Skipatækni. Knarr Maritime sérhæfir sig í skipalausnum og er einskonar markaðsarmur og samstarfsvettvangur þessara fyrirtækja. Ingólfur segist binda miklar vonir við Knarr Maritime.

„Við sem komum að Knarr þekkjumst vel," segir Ingólfur. „Við erum ekki keppinautar heldur samherjar og það er betra fyrir okkur að vinna saman en að vera hver að rembast eitthvað einn úti í horni. Við erum stórhuga og ætlum að búa til tækniskip framtíðarinnar. Það þýðir að skipið verður byggt utan um framleiðslutækni framtíðarinnar. Við viljum snúa skipasmíðaferlinu við. Byrja að hugsa um fiskinn, síðan búnaðinn til að vinna fiskinn og loks umgjörðina utan um þetta allt saman — sjálft skipið. Í dag er þetta þannig að einhver teiknar skip og síðan þarf að troða öllum búnaðinum inn í það. Þetta er ekki rétt nálgun að okkar mati því í rauninni er skip í dag ekkert annað en umbúðir utan um tækni. Hugsunin er auk þess sú að skipið verði umhverfisvænt og ekki orkufrekt. Það er arðsamt að eyða ekki orku og það er arðsamt að geta afkastað miklu á skömmum tíma."

Ítarlegt viðtal er að finna við Ingólf í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af tímartinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .