Átaksverkefninu Konur í tækni var hleypt af stokkunum til höfuðs þeirri mýtu að tæknistörf séu fyrst og fremst fyrir karlmenn.

Upphafskonur verkefnisins eru þær: Armina Ilea, Auður Alfa Ólafsdóttir og Paula Gould sem allar starfa hjá GreenQloud og vilja byggja upp samfélag á Íslandi sem byggist á samvinnu og er til þess fallið að styðja við konur í tæknigeiranum. Þær standa fyrir mánaðarlegum viðburðum með það að markmiði að hvetja konur til þess að leggja fyrir sig nám í tæknigreinum, efla konur innan tæknigeirans og styrkja tengslanet sitt.

Í dag komu saman í Marel aðstandendur verkefnisins þær  Armina Ilea og Auður Alfa Ólafsdóttir ásamt Nancy Valenttina Griffin, Guðrúnu Laugu Ólafsdóttur og Ragnheiði Halldórsdóttur frá Marel en næsti viðburður verkefnisins verður haldinn í Marel 19. febrúar. Þar munu Guðrún Lauga Ólafsdóttir, Rósa Björg Ólafsdóttir og Gunnlaug Ottesen deila reynslu sinni af tækniheiminum.

„Það er mikilvægt að efla umræðu og vitund um tækni og nýsköpun í samfélaginu og hvetja konur til að taka þátt í þeirri umræðu og deila reynslu sinni. Sömuleiðis að styrkja samböndin og læra af öðrum,“ segir Ragnheiður Halldórsdóttir, gæðastjóri Marel í tilkynningu vegna verkefnisins.

Armina Ilea, fulltrúi viðskiptaþróunnar GreenQloud, segist sjá mikil verðmæti í því að fara í samstarf við fleiri fyrirtæki sem geti haldið viðburði og tekið þátt en það muni koma til með að styrkja verkefnið á marga vegu.