Um mánaðamótin tók til starfa lögmannsstofan Deloitte Legal en stofan er að fullu í eigu lögmanna sem á henni starfa. Að sögn framkvæmdastjóra félagsins munu tækninýjungar vera meðal þess sem mun marka stofunni ákveða sérstöðu.

„Það sem við höfum orðið áskynja er að það er eftirspurn eftir lögmannsstofu sem er hluti af stóru, samtengdu alþjóðlegu neti. Alþjóðlegt net Deloitte Legal spannar yfir áttatíu lönd og ríflega 2.000 lögmenn og lögfræðinga. Það er í senn sérstaða okkar á markaðnum og mikill styrkleiki sem er vel til þess fallinn að styðja við íslensk fyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi og erlend fyrirtæki sem hafa áhuga á Íslandi,“ segir Haraldur I. Birgisson, einn eigenda og framkvæmdastjóri .

„Við leggjum mikla áherslu á að starfshættir okkar séu formlegir en ráðgjöfin sé á mannamáli, þannig að afurðir verði hagnýtar en ekki þungar af fræðum eins og gjarnan vill verða hjá lögfræðingum. Aðgengi okkar að fjölbreyttum hópi sérfræðinga innan Deloitte, svo sem á sviði fjármálaráðgjafar, endurskoðunar og tæknilausna, er annar aðgreinandi þáttur stofunnar,“ segir Guðbjörg Þorsteinsdóttir, meðeigandi og stjórnarformaður stofunnar.

Þegar minnst er á Deloitte fylgja yfirleitt sjálfkrafa hugrenningartengsl yfir í endurskoðun og reikningsskil. Það sem af er öld hefur starfsemi í áhættu-, fjármála-, skatta- og lögfræðiráðgjöf hins vegar vaxið fiskur um hrygg og er nú svo komið að þeir þjónustuþættir eru um helmingur af tekjum Deloitte á Íslandi.

„Skatta- og lögfræðiráðgjöf er samofin nær öllum ákvörðunum fyrirtækja, sér í lagi þegar um er að ræða fjárfestingar og viðskipti milli landa. Hér innanhúss er gríðarmikil þekking sem kemur til með að styðja við lögmannsstörf sem og annars konar lögfræðiráðgjöf, til að mynda til fyrirtækja í fjárfestinga- eða endurskipulagningarfasa,“ segir Haraldur.

Tæknin umbreytir lögmannsstörfum

Framkvæmdastjórinn nefnir einnig til sögunnar að gríðarleg tækifæri séu til staðar til að nýta tæknina í lögmannsstörfum. Þar hafi Deloitte Legal verið í fremstu röð í heiminum.

„Tæknin er að umbreyta viðskiptaháttum allra atvinnugreina og lögmannsstofur eru ekkert undanskildar í þeim efnum. Deloitte Legal á heimsvísu hefur fjárfest umtalsvert í allskyns tæknilausnum sem nýtast í slíkum störfum. Við erum að skoða innleiðingu á nokkrum af þeim með það að markmiði auka skilvirkni og gæði vinnunnar,“ segir Haraldur.

Sú tækniþróun hefur átt sér stað í talsvert langan tíma en meginstef hennar hefur verið þríþætt. Í fyrsta lagi tekur Haraldur sem dæmi að á sviði samningamála séu nú þegar til staðar tæknilausnir sem sjá um og auðvelda samningagerð í umfangsmeiri verkefnum.

„Þá hefur gervigreindartól verið í þróun sem vinnur úr og greinir dómsniðurstöður til að auðvelda hagnýtingu á þeim. Það gerir okkur kleift að tengja úrlausnir sambærilegra mála hér og erlendis og skoða að auki þróun mála sem gefur okkur mikla innsýn í hvers megi vænta í áskorunum okkar viðskiptavina. Í þriðja lagi þá hefur verið unnið að miðlægri miðlun upplýsinga, ekkert ósvipað og hefur þekkst lengi fyrir fjárhagsupplýsingar. Slík kerfi eru nú í undirbúningi fyrir lagahliðina með það fyrir augum að viðskiptavinir fái mun betri yfirsýn yfir verkefni sem verið er að vinna hvar sem er í heiminum. Slíkar lausnir geta verið daglegur hluti af þeim kerfum og verkferlum sem þegar eru til staðar hjá viðskiptavinum,“ segir Haraldur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .