Tækniþróunarsjóður veitir 462 milljónum króna til nýsköpunar og þróunar í fyrirtækjum sem má teljast mikilvæg innspýting beint inn í atvinnulífið í landinu, en þetta er fyrri úthlutun ársins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sjóðurinn fagnar 10 ára afmæli á þessu ári, en hann var stofnaður árið 2004 og hefur verið ómetanlegur fyrir íslensk fyrirtæki og frumkvöðla sem hafa fengið styrk úr sjóðnum við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Mikill hugur er í stjórn Tækniþróunarsjóðs eftir tilkynningu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra og formanns Vísinda- og tækniráðs, um verulega stækkun sjóðsins.

Bein innspýting fjár til nýsköpunar og þróunar í íslensku atvinnulífi

Að þessu sinni ákvað stjórn sjóðsins að veita 45 verkefnum brautargengi og nema styrkirnir alls 462 milljónum króna. Renna styrkirnir annars vegar til 22 nýrra verkefna og 23 framhaldsverkefna, en allar umsóknir um framhaldsstyrki hlutu styrk. Eins og sjá má af þessum tölum, er Tækniþróunarsjóður eitt öflugasta stuðningstækið í umhverfi nýsköpunar og þróunar fyrir fyrirtæki á Íslandi. Tekjur Tækniþróunarsjóðs eru framlög af fjárlögum og er framlagið fyrir 2014 alls 987,5 milljónir sem veitt er í tveimur úthlutunum, að undangengu umsóknarferli og faglegu mati.

Tækniþróunarsjóður

Tækniþróunarsjóður heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Stjórnarformaður er Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP. Sjóðurinn starfar skv. lögum nr. 75/2007 um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.  Hlutverk hans er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði allra atvinnugreina, sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Rannís hefur umsjón með starfsemi sjóðsins.