Fyrirtækið Curron hóf starfsemi sína árið 1991 og sérhæfði sig lengi vel í hugbúnaðargerð í kortaþjónustu og aðgangsstýringarkerfum eða það sem í dag myndi flokkast undir fjártækni. Fyrir þremur árum ákvað félagið að breyta stefnunni og færa sig yfir í velferðartækni.

„Haustið 2015 förum við á fund Reykjavíkurborgar og kynnum fyrir þeim hugmynd að nýrri hugbúnaðarlausn fyrir velferðarþjónustuna,” segir Jóhann R. Benediktsson, markaðssjóri Curron. Vel var tekið í hugmyndina og í kjölfarið var ákveðið að hefja samstarf um þróun heimaþjónustukerfisins CareOn. Þróun kerfisins hefur staðið yfir vel á þriðja ár og borgin búin að nota það til að sinna þjónustu í Bústaðahverfi í rúmt ár.

Árangurinn þótti góður, þró­unarverkefninu er nú lokið og borgin er að taka kerfið í almenna í notkun um þessar mundir. Þá hafa Kópavogur, Hafnarfjörður og Hveragerði einnig innleitt kerfið fyrir sína heimaþjónustu auk fleiri sveitarfélaga.

Hann segir CareOn halda utan um allt skipulag þjónustunnar; hver eigi að fá þjónustu, hvenær, hvaða þjónustu og hvaða starfsmaður eigi að veita hana. Jafnframt sé öll framkvæmd þjónustunnar skráð í rauntíma þannig að frávik og atvik koma strax í ljós.

„Það sem skiptir kannski mestu máli er að það er einfalt að innleiða kerfið og fljótlegt. Til marks um það þá er kerfið innleitt í Vestmannaeyjabæ á nokkrum dögum án þess að starfsmenn Curron þyrftu að mæta á staðinn. Grundvallareiginleiki kerfisins og grundvallarhugsunin er einfaldleiki og að það sé notendavænt. Fyrstu starfsmenn Reykjavíkurborgar sem byrjuðu að prófa það voru eldri konur sem höfðu aldrei átt snjallsíma. Þær lærðu að nota kerfið á tuttugu mínútum,” bætir Jó­hann við.

Hann telur þó líklegra að almenningur verði í auknum mæli var við breytingarnar þegar næsta viðbót við kerfið verður kynnt til sögunnar. „Þegar samskiptaforritið svokallaða verður tekið í notkun á seinni hluta árs þá munu ættingjar tengjast kerfinu, geta séð þjónustuáætlanir og skipulagt sína aðkomu. Það er þó að sjálfsögðu alltaf háð samþykki þess sem nýtur þjónustunnar,” segir Jóhann. Hann bætir við að einnig sé stefnt að því að tengja fleiri velferðarlausnir inn í kerfið með tíð og tíma.

Aðspurður segir Jóhann að erlendis séu til hugbúnaðarkerfi sem hafi svipaða eiginleika en þau eigi það þó öll sammerkt að vera mun dýrari og flóknari. „Kerfið er byggt upp með þeim hætti að það er einfalt í útbreiðslu og að mörgu leyti líkara tölvuleik en hefðbundnu hugbúnaðarkerfi. Það er engin launung að það er gríðarlegur áhugi erlendis frá og við erum í viðræðum við fjölda aðila um innleiðingu kerfisins. Í mörgum löndum eru engar álíka hugbúnaðarlausnir til staðar og oft er þetta mjög forneskjulegt. Þannig það er ekki þannig að að það þurfi að ryðja öðrum úr vegi.”

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .