Ræstingafyrirtækið Sólar ehf. hefur verið í stöð­ ugum vexti undanfarin ár og í dag er svo komið að fyrirtækið er það næststærsta á markaðnum og hjá því starfa um 320 manns. Velta fyrirtækisins hefur aukist mikið og nam m.a. 1.275 milljónum króna í fyrra og stefnir að því að hún verði 1.500 milljónir í ár að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Þórsteins Ágústssonar. Velgengnina má að hans sögn helst rekja til hugbúnaðar- og tækniþró­unar sem fyrir tækið hefur fjárfest í að undanförnu auk öflugrar starfsmannastefnu

Stofnaði fyrirtæki í kringum áherslur í mannauðsmálum

„Sólar var stofnað árið 2002 í kringum ákveðnar áherslur í mannauðsmálum. Stofnandi fyrirtækisins, Einar Ólafsson heitinn, vildi stofna fyrirtæki með öðruvísi áherslur, þar sem starfsmaðurinn yrði í forgrunni og við höfum reynt að starfa í samræmi við þetta markmið síðastliðin 15 ár. Sólar hefur á þessum tíma vaxið úr einum starfsmanni í rúmlega 300 manna fyrirtæki sem gerir okkur að öðru stærsta ræstingaþjónustufyrirtæki landsins,“ segir Þórsteinn. „Við störfum bara á höfuðborgarsvæðinu í dag og þjónustum allt frá litlum stigagöngum upp í stærstu spítala og allt þar á milli. Við komum í raun að flestum sviðum mannlífs, allt frá fæðingardeildum upp í hjúkrunarheimili.“

Einar kenndi viðskiptafræði og endurskoðun við Háskólann á Bifröst og Háskólann á Akureyri og vildi að sögn Þórsteins stofna fyrirtæki sem hefði mannleg gildi og jákvæðni að leiðarljósi. „Í raun valdi hann sér meðvitað þá atvinnugrein sem hefur iðulega verið kennd við lág laun og að vera mikið sótt af útlendingum. Hann féll frá árið 2007 en við sem tókum við höfum reynt að halda þessum markmiðum hans á lofti og könnun sem nýlega var framkvæmd meðal starfsmanna okkar sýnir að þeir eru flestir sammála því að okkur hafi tekist það. Árangurinn endurspeglast kannski best í þeim fáu málum sem okkur hafa borist frá stéttarfélögum eins og Eflingu en mér hefur ekki borist bréf frá þeim í tvö ár, sem ég held að sé mjög sjaldgæft í svo stóru fyrirtæki.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.