Stefnt er að því að á næsta ári taki hér á landi til starfa svokölluð tækniveita, eða tækniyfirfærsluskrifstofa og hefur verið stofnað undirbúningsfélag að því.

Að þessu samstarfsverkefni standa allir háskólar landsins ásamt opinberum rannsóknarstofnunum og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og hafa þau stofnað undirbúningsfélagið Auðnu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu, en framkvæmdastjóri þess er Einar Mäntylä.

Veikur hlekkur í nýsköpunarkeðju

„Erlendar og innlendar úttektir á nýsköpunarumhverfinu hérlendis hafa leitt í ljós að skortur á tækniyfirfærslu (technology transfer) úr háskólum og rannsóknastofnunum er veikur hlekkur í nýsköpunarkeðjunni," segir í tilkynningunni.

„Tækniveitunni er ætlað að vera brú á milli rannsókna og nýsköpunar þannig að verðmætur ávöxtur vísinda- og þekkingarstarfs skili sér til samfélagsins.

Tækniveitan mun leggja faglegt mat á uppfinningar vísindamanna, sinna hugverkavernd og hugverkastjórnun og fylgja verkefnum eftir í hendur fjárfesta, frumkvöðla og atvinnulífsins innanlands sem utan.

Vilja efla atvinnulíf og samkeppnishæfni

Sameiginleg tækniveita háskóla og rannsóknastofnana á Íslandi getur gegnt mikilvægu hlutverki í að virkja betur vísindastarf, styrkja nýsköpun, efla atvinnulíf og þar með samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Fulltrúar margra þeirra stofnana sem koma að undirbúningsfélaginu Auðnu hittust á stofnfundi þann 27. janúar þar sem meðfylgjandi mynd var tekin.

Þarna má sjá fulltrúa Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Landspítala – háskólasjúkrahúss, Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Bifröst, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Matís, Hafrannsóknastofnunar, Landgræðslu ríkisins, Vísindagarða HÍ og atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytisins.

Á myndina vantar fulltrúa Listaháskóla Íslands og Háskólans á Hólum."