Umboðsaðili Samsung hefur kært ákvörðun Neytendastofu sem lagði bann við auglýsingu á Galaxy S4.

Framkvæmdastjóri Tæknivara segir ákvörðunina ganga gegn hagsmunum neytenda og að Neytendastofa fari með valdheimildir af meiri léttúð en stjórnarskrárvarin réttindi til tjáningarfrelsis gefi tilefni til. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Tæknivörum í dag.

Þar kemur einnig fram að Tæknivörur hafi í dag lagt fram greinargerð til Áfrýjunarnefndar neytendamála þar sem kærð er ákvörðun Neytendastofu um að banna auglýsingu á Galaxy S4. Ákvörðun Neytendastofu um að banna auglýsinguna kom í kjölfar kvörtunar frá fyrirtækinu Skakkiturn ehf. þar sem m.a. var gerð athugasemd við notkun eplis og íslenskrar sauðkindar í auglýsingunni.

Auglýsingunni, sem ber yfirskriftina „Fáðu þér síma sem skilur þig“, er ætlað að vekja athygli á byltingu í máltækni fyrir íslenska tungu. Nýjungin felst m.a. í að notendur Android síma og spjaldtölva frá Samsung geta nú talað eða lesið upp texta í stað þess að nota fingur til að skrifa texta á lyklaborði. Hinn auglýsti sími, Samsung Galaxy S4, getur því skilið íslensku, eins og segir í auglýsingunni.

Sveinn Tryggvason, framkvæmdastjóri Tæknivara segir: „Fyrir utan að vera ósammála þeim rökum sem Neytendastofa leggur til grundvallar ákvörðun sinni fyrir banni á auglýsingunni teljum við ákvörðunina vera til þess fallna að skerða upplýsingar til neytenda og þar með ganga gegn hagsmunum þeirra. Auk þess tel ég stofnunina fara með valdheimildir sínar af meiri léttúð en en stjórnarskrárvarin réttindi til tjáningarfrelsis gefi tilefni til.“