Íslenskt háskólasamfélag og atvinnulíf hefur verið gagnrýnt fyrir skort á kerfi sem tryggi tækniyfirfærslu. Hver er helsti ávinningur af slíku kerfi og hvaða hættur skapast þegar slíkt kerfi er ekki til staðar?

Reynslan um allan heim hefur staðfest að vel skilgreint og skilvirkt kerfi fyrir tæknilega yfirfærslu eykur samkeppnishæfni þjóða. Í ákveðnum atvinnuvegum, t.d. á sviði líftækni, hafa slík kerfi gegnt lykilhlutverki í því að tryggja að ný tækni, sem verður til við ríkisstyrktar frumrannsóknir, sé nægilega vel skilgreind og varin til að hægt sé fá samstarfsaðila til að þróa tæknina áfram.

Þegar ekkert kerfi tryggir að tæknileg yfirfærsla geti átt sér stað, er hætt við því að ný tækni verði ekki þróuð áfram. Erfiðara verður að stofna fyrirtæki í nýsköpun á grunni vísindalegra rannsókna og líkurnar á því að slík fyrirtæki nái árangri eru minni. Möguleikar slíkra fyrirtækja til að finna samstarfsaðila í atvinnulífinu eru sömuleiðis mun minni. Þannig getur skortur á faglegri nálgun á tækniyfirfærslu dregið úr möguleikum hagkerfisins til að vaxa.

MIT háskóli á að baki langa sögu um velheppnaða tæknilega yfirfærslu. Er aðferðafræði MIT eitthvað sem hægt er að innleiða á Íslandi eða eigum við að þróa okkar eigið kerfi sem tekur mið af sérstöðu okkar og umhverfi?

Að mínu viti ættu bæði þjóðríki og stofnanir að horfa til velheppnaðra yfirfærslukerfa, eins og eru til staðar í háskólum á borð við MIT, Stanford, Columbia, Oxford, Cambridge o.s.frv. Reyna að festa hendur á hvaða þættir liggja að baki velgengni þeirra og koma auga á hvað í umhverfinu þeir eiga sameiginlegt og hvað greinir á milli. Á slíkum grunni er svo hægt að sníða kerfi sem gengur upp fyrir ólíkar þjóðir og stofnanir. Til að mynda eru á hverju ári að jafnaði 32 ný sprotafyrirtæki stofnuð á grundvelli rannsókna sem gerðar eru í MIT. Í tilfelli Íslands gæti verið heppilegt að árlega verði fjögur slík fyrirtæki að veruleika miðað við annars vegar umfang og vísindasvið þeirra rannsókna sem hér eru stundaðar og hins vegar getu atvinnulífsins til nýfjárfestinga.

Hvað er tækniyfirfærsla?

Tækniyfirfærsla (e. technology transfer) er það ferli sem á sér stað þegar notkun á tækni fer frá litlum hópi (t.d. þeirra sem uppgötva tæknina) yfir í dreifðari eða almenna notkun. Ferlið getur t.d. átt sér stað á milli háskóla og viðskiptalífsins, stórra fyrirtækja og lítilla, stjórnvalda og viðskiptalífs. Sömuleiðis getur tækniyfirfærsla átt við þegar tækni úr einum geira atvinnulífsins er innleidd af öðrum atvinnuvegi. Algengast er að tala um tækniyfirfærslu í samhengi við tengsl rannsókna og uppgötvana, sem gerðar eru í háskólum eða opinberum stofnunum, annars vegar og hins vegar atvinnulífsins, sem aftur kemur tækninni á framfæri við nýja notendur á ólíkum sviðum.

Til þess að tryggja að þetta ferli geti átt sér stað hafa margir háskólar, þjóðríki og atvinnuvegir sett á fót sérstakar stofnanir í því skyni að stuðla að og gera tækniyfirfærslu mögulega. Slíkum yfirfærslustofnunum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarna áratugi en uppgangur þeirra er oft rakin til svokallaðra Bayh-Dole laga sem voru sett í Bandaríkjunum í upphafi níunda áratugar síðustu aldar. Jafnframt hafa augu fræðisamfélagsins í vaxandi mæli beinst að tæknilegri yfirfærslu sem sérstöku viðfangsefni og í dag eru gefin út fræðitímarit sem eru alfarið helguð málaflokknum. Almennt eru fræðimenn sammála um að Bayh-Dole löggjöfin hafi skapað aukinn hvata fyrir einstaklinga, háskóla og fyrirtæki til að fjárfesta í nýjum rannsóknum.