Um 19 þúsund manns störfuðu við ferðaþjónustu hér á landi á síðasta ári, og hefur þeim farið fjölgandi undanfarin misseri samfara miklum vexti greinarinnar að því er fram kemur í nýrri skýrslu Háskólans á Bifröst.

Skýrslan var unnin fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið en hún reynir að gefa mynd af þróun og samsetningu launa innan ferðaþjónustunnar og bera hana saman við almenna launaþróun.

Störfum fjölgar mun minna en ferðamönnum

„Starfsmönnum í ferðaþjónustu hafi þó ekki fjölgað jafn hratt og ferðamönnum, en frá 2010 til 2015 hafi fjölgun ferðamanna verið um 175% á meðan störfum við ferðaþjónustu hafi fjölgað um 65%,“ að því er fram kemur í fréttatilkynningu um skýrsluna.

„Meðal helstu niðurstaðna er að laun í ferðaþjónustu hafa ekki hækkað til jafns við laun almennt.“

Lægstu launin í veitingaiðnaði

Samkvæmt skýrslunni þá hækkuðu laun í ferðaþjónustu á árunum 2010 til 2014 einungis um 24% á sama tíma og laun að meðaltali hækkuðu um 28%.

„Laun séu hæst í flugsamgöngum en lægst í veitingaiðnaði. Þá séu launin hæst á Austurlandi og í Reykjavík en lægst á Vestfjörðum, eða um 34% lægri en á fyrrgreindum svæðum,“ segir í tilkynningunni.

Starfsaldur skýrir launamun

„Þá kemur fram að laun þeirra sem starfa allt árið séu umtalsvert hærri en laun þeirra sem starfa hluta úr ári, en að það skýrist m.a. af starfsaldri.

Í skýrslu Háskólans á Bifröst kemur auk þess fram að óútskýrður launamunur kynjanna sé umtalsverður og að karlar séu með um 20% hærri laun en konur innan ferðaþjónustunnar, m.v. launaupplýsingar frá árinu 2014.

Mesti munurinn sé í flokki ferðaskrifstofa og skipuleggjenda, þar sem karlar séu með um 50% hærri laun en konur. Minnsti munurinn sé í flokki hótela og gistiheimila. Þar séu konur með um 0,5% hærri laun en karlar, en þær séu um 70% starfsmanna í þeim flokki.“