Verkfallsboðun á félagssvæði VR var samþykkt í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem lauk á hádegi í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Kosið var um verkfall meðal félagsmanna sem starfa í fyrirtækjum innan Samtaka atvinnulífsins (SA) annars vegar og innan Félags atvinnurekenda (FA) hins vegar. Atkvæðagreiðslan var rafræn og hófst að morgni 12. maí síðastliðinn.

Hvað SA varðar sögðu alls 3.830 já við boðun verkfalls eða 58% en 2.624 sögðu nei eða 39,7%. Auð atkvæði voru 154 eða 2,3%. Kosningaþátttaka var 25,2% en á kjörskrá voru 26.225.

Hjá fyrirtækjum innan FA sögðu alls 139 félagsmenn já við boðun verkfalls eða 57,4% en 96 sögðu nei eða 39,7%. Auð atkvæði voru 7 eða 2,9%. Kosningaþátttaka var 29,8% en á kjörskrá voru 813.

Séu tölurnar teknar saman kemur í ljós að í heildina samþykktu 3.969 verkfallsboðun af 27.038 á kjörskrá, eða 14,6% félagsmanna.