Rétt ríflega eitt ár er liðið síðan Boeing 737 MAX farþegaþoturnar voru kyrrsettar. Ákvörðun um kyrrsetningu var tekin í mars í fyrra eftir tvö mannskæð flugslys. Í október árið 2018 hrapaði Boeing MAX vél indónesíska flugfélagsins Lion Air með þeim afleiðingum að 189 létu lífið. Í byrjun mars árið 2019 varð annað flugslys þegar Boeing MAX vél flugfélagsins Ethiopia Airlines , hrapaði skömmu eftir flugtak og 157 létust. Eftir seinna flugslysið voru Boeing MAX vélarnar kyrrsettar og slysin rakin til galla í flugstjórnarkerfinu MCAS ( Maneuvering Characteristics Augmentation System ).

Upphaflega átti kyrrsetningin einungis að vara í nokkra mánuði en hún varir enn. Flugfélög, sem eiga Boeing MAX eða höfðu pantað slíkar vélar, gera ekki ráð fyrir þeim í sumaráætlunum sínum. Þær fréttir eru raunar síðan í febrúar eða áður en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ( WHO ) skilgreindi útbreiðslu kórónuveirunnar sem heimsfaraldur. Hefur faraldurinn haft mikil áhrif víða um heim. Heilu löndin hafa lokað og ferðabann er víða í gildi. Eins og gefur að skilja hefur þetta komið mjög hart niður á flugfélögum.

Icelandair er eitt þeirra félaga sem lent hefur í vandræðum vegna kyrrsetningarinnar. Þegar MAX vélarnar voru kyrrsettar í mars á síðasta ári hafði Icelandair þegar fengið 6 af þeim 16 vélum sem áætlað var að kæmu inn í flota félagsins til ársins 2021.

Frjáls verslun fékk Gallup til að gera skoðanakönnun, þar sem spurt var út í Boeing MAX . Annars vegar var spurt: Vissir þú að MAX 737 flugvélar Boeing hafa verið kyrrsettar frá því í Mars 2019 vegna framleiðslugalla?

Niðurstaðan er mjög afgerandi því 94% sögðust vita af kyrrsetningu vélanna en 6% sögðust ekki vita af henni. Á bilinu 93 til 98% fólks sem er 25 ára eða eldra segist vita af kyrrsetningunni en 74% fólks sem er 18 til 24 ára.

Í könnuninni var einnig spurt: Segjum sem svo að þú værir að panta flug með flugfélagi sem þér líkar, á sanngjörnu verði og að flugtíminn henti þér vel, 6 mánuðum eftir að 737 MAX vélarnar hafa verið samþykktar aftur af flugmálayfirvöldum. Hversu líklegt er að þú myndir klára að panta flugið ef flogið væri með Boeing 737 MAX vél?

Rétt ríflega 58% segja líklegt að það muni kaupa flugmiða sex mánuðum eftir að Boeing MAX vélarnar verði samþykktar af flugmálayfirvöldum og komnar loftið. Um 30% segja það ólíklegt og tæplega 12% svara hvorki né.

Boeing Max könnun
Boeing Max könnun

Athygli vekur mikill munur á afstöðu kynjanna til þessarar spurningar. Þegar konur eru spurðar segja um 55% þeirra líklegt að þær muni kaupa flugmiða sex mánuðum eftir að Boeing MAX vélarnar fari í loftið en 45% segja það ólíklegt. Karlar eru mun líklegri til að kaupa flugmiða því um 76% segja líklegt að þeir muni kaupa miða en 24% segja það ólíklegt.

Könnun Gallup var netkönnun , sem stóð yfir frá 2. til 9. mars. Í úrtakinu voru 1.584 einstaklingar af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfshópi Gallup . Fjöldi svarenda var 827 og þátttökuhlutfallið því 52,2%. Af þeim tóku á bilinu 92,3 til 98,1% afstöðu í þeim tveimur spurningunum sem lagðar voru fyrir.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út og færst í verslun Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .