Útbreiðsla kórónuveirunnar og sjúkdómurinn COVID -19 hefur áhrif um allan heim. Áhrifin á heimshagkerfið verða nú sýnilegri dag frá degi. Ferðaþjónustan er sá geiri sem veiran hefur haft hvað mest áhrif á eins og staðan er í dag. Í því ljósi fékk Viðskiptablaðið Gallup til að gera skoðanakönnun um hvaða áhrif kórónuveiran hefði á ferðalög Íslendinga til útlanda.

Í könnuninni var meðal annars spurt hversu margar utanlandsferðir fólk hygðist fara á næstu 6 mánuðum. 30% sögðust ekki ætla í neina ferð en um 70% stefna út, þar af ætla 38% í eina utanlandsferð og 32% í tvær eða fleiri utanlandsferðir.

Ein meginniðurstað könnunarinnar er sú að 41% þeirra sem ætla eða ætluðu að ferðast út fyrir landsteinana á næstu sex mánuðum sagði veiruna hafa haft áhrif á þau áform sín. Um 59% sögðu veiruna ekki hafa haft nein áhrif á áform sín um utanlandsferðir.

Þegar rýnt er frekar í þessar tölur kemur í ljós að ríflega 27% þeirra sem ætla eða ætluðu að ferðast út fyrir landsteinana á næstu sex mánuðum, segjast hafa seinkað kaupum á utanlandsferð til að bíða og sjá hvernig útbreiðsla veirunnar þróast. Um 7% segjast einfaldlega hafa hætt við að fara til útlanda og 5% segjast vera í biðstöðu með keypt flug og ætla að sjá hvernig útbreiðsla veirunnar þróast.

Könnunin stóð yfir dagana 2. til 9. mars. Í úrtakinu voru 1.584 einstaklingar af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfshópi Gallup . Fjöldi svarenda var 827 og þátttökuhlutfallið því 52,2%. Af þeim tóku á bilinu 91,1 til 98,5% afstöðu í þeim spurningum sem lagðar voru fyrir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér