*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 31. október 2014 13:51

Tæp 70% andvíg rekstri spilavíta á Íslandi

Ungir karlar voru í sérflokki í könnun MMR, en 70,3% karla á aldrinum 18 til 29 ára sögðust fylgjandi rekstri spilavíta á Íslandi.

Ritstjórn
AFP

MMR hefur birt niðurstöður úr könnun þar sem athugað var hversu fylgjandi eða andvígt fólk væri gagnvart því að leyfa rekstur spilavíta á Íslandi.

Meirihluti var andvígur þeirri hugmynd að leyfa reksturinn, eða 68,6% aðspurðra. Hlutfallið var 69,3% þegar sambærileg könnun var framkvæmd í júlí á síðasta ári.

Ungir karlar fylgjandi rekstri spilavíta

Ungir karlar voru í sérflokki hvað varðar viðhorf til reksturs spilavíta á Íslandi. Þannig sögðust 70,3% karla á aldrinum 18 til 29 ára vera fylgjandi rekstri spilavíta á Íslandi og 52,5% karla á aldrinum 30 til 49 ára.

Munur var á afstöðu eftir heimilistekjum. Þannig sögðust 38,4% þeirra sem tilheyrðu tekjuhæsta hópnum (milljón á mánuði eða hærri tekjur) vera fylgjandi rekstri spilavíta á Íslandi, borið saman við 29,0% þeirra sem tilheyrðu tekjulægsta hópnum (undir 250 þúsund á mánuði).

Þeir sem studdu Sjálfstæðisflokkinn og Píratar voru líklegastir til að vera fylgjandi rekstri spilavíta á Íslandi á meðan Vinstri-græn voru síst fylgjandi. Þannig sögðust 45,6% Sjálfstæðisfólks og 44,8% Pírata vera fylgjandi hugmyndinni um rekstur spilavíta á Íslandi, borið saman við 9,3% Vinstri-grænna.

Svarfjöldi könnunarinnar var 959 einstaklingar og tóku 92,5% afstöðu til spurningarinnar.

Stikkorð: Könnun MMR Spilavíti