Umtalsverð viðskipti hafa átt sér stað með hlutabréf í Vátryggingafélagi Íslands í dag. Nánar tiltekið hafa bréf fyrir tæpa 1,44 milljarða króna skipt um hendur. Þetta jafngildir 7,9% af hlutafé VÍS, en markaðsvirði félagsins er 18,1 milljarður króna.

Í þessum viðskiptum hafa hlutabréf félagsins hækkað um 3,31% og stendur verðið í 8,42 þegar fréttin er skrifuð.

Fyrr í vikunni skipti VÍS um forstjóra er Jakob Sigurðsson var ráðinn í stað Sigrúnar Rögnu Ólafsdóttur. Afkoma félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins var undir væntingum og nam 238 milljónum króna eftir að hafa verið 1.419 milljónir á sama tíma í fyrra.

Í gærkvöldi var send tilkynning vegna viðskipta fjárhagslega tengds aðila með hlutabréf í VÍS, en stjórnarmaðurinn Reynir Finndal Grétarsson keypti 35 milljónir hluta á genginu 8,2 klukkan 21:40. Nema heildarviðskiptin 287 milljónum króna.

Velta með bréf VÍS hefur einungis einu sinni verið meiri frá því að félagið var skráð á markað, en það var þann 10. nóvember 2015 þegar hún nam 1,64 milljarði.