Kostnaður við skönnun Alþingistíðinda stendur nú í tæpum 200 milljónum króna og hefur farið langt fram úr áætlunum. Verkið hófst árið 2002 og var þá áætlað að það tæki þrjú ár með þrjá menn í vinnu, en tólf árum síðar er því hvergi nærri lokið. Fréttablaðið greinir frá málinu.

Vinnan hefur farið fram á tveimur stöðum á landinu, á Hvammstanga og í Ólafsfirði. „Starfsmenn í Ólafsfirði eru nú tveir en voru fimm þegar mest var. Hluti tæknivinnslunnar er nú kominn inn á skrifstofu þingsins í Reykjavík,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við Fréttablaðið. Segir hann jafnframt mikla vinnu eftir við að klippa niður skjöl og stilla þeim upp til birtingar á vefnum.

„Menn hafa greinilega vanáætlað verkið gríðarlega. Um viðamikið verk er að ræða,“ segir Helgi.