*

laugardagur, 8. maí 2021
Innlent 2. júlí 2015 16:03

Tæpar 22 milljónir söfnuðust í WOW Cyclothon

Keppendur í WOW Cyclothon söfnuðu 21.728.250 krónum til styrktar uppbyggingu Batamiðstöðvar á Kleppi.

Ritstjórn

WOW Cyclothon keppnin fór fram í síðasta mánuði og gekk keppnin vonum framar að sögn skipuleggjenda. U.þ.b. þúsund manns hjóluðu hringinn í kringum landið og sagði Matthias Ebert, sigurvegari einstaklingskeppninnar, að WOW Cyclothon væri ein stærsta “Ultra Cycling” keppni í heimi m.v. fjölda þátttakenda.

Keppendur í WOW Cyclothon söfnuðu alls 21.728.250 krónum til styrktar uppbyggingar Batamiðstöðvar á geðsviði Landspítalans á Kleppi, sem er mun meira en safnaðist í keppninni í fyrra. Þá söfnuðust um 15 milljónir króna. Hjólakraftsliðin fjögur unnu áheitasöfnunina og söfnuðu samtals 1.034.500 krónum en lið MP banka kom fast á hæla þeirra og safnaði 1.021.000 krónum.

Í dag fór fram formleg afhending á Kleppi þar sem María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, ásamt samstarfsfólki tók á móti táknrænni risaávísun frá aðstandendum WOW Cyclothon og liðsmönnum Hjólakrafts.

15 milljónirnar í fyrra fóru í að styrkja tækjakaup fyrir bæklunarskurðdeild Landspítalans, en áherslan í ár var að styðja við málefni geðsjúkra, sem í tilkynningu frá WOW Air eru sögð hafa notið of lítils stuðnings í samfélaginu. Söfnunarfénu verður varið til að byggja upp aðstöðu til hreyfingar á Kleppi og til að ráða íþróttafræðing til að leiða verkefnið.