Af 922 milljarða króna eign innlendra aðila í erlendum verðbréfum í lok síðasta árs voru um 140 milljarðar króna í þekktum aflandslöndum og skattaskjólum þar sem alla jafna fást takmarkaðar ef þá nokkrar upplýsingar um fjármunina og eigendur þeirra. Löndin laða fjárfesta til sín frá löndum þar sem skattheimta er þyngri eða ef eigendur fjármunanna vilja fela þá af einhverjum sökum. Athygli vekur að eign innlendra aðila á Cayman-eyjum dregst saman en eykst á öðrum stöðum.

Inni í upphæðinni er 99,8 milljarða króna eign innlendra aðila í Lúxemborg. Ef hún er undanskilin standa eftir tæpir 38 milljarðar króna.

Þekktustu lönd sem undir þessa skilgreiningu falla eru Bresku Jómfrúreyjar og Caymaneyjar ásamt Jersey, Guernsey, Mön, Bermúda og Bahamaeyjum. Þá ríkir mikil bankaleynd í Lúxemborg og í Sviss.

Fjármunir flytjast frá einum stað til annars

Samkvæmt upplýsingum sem Seðlabankinn birti í dag eiga innlendir aðilar 10,6 milljarða króna á Guernsey og 7,5 milljarða króna á Caymaneyjum og rúmir 8,9 milljarðar í Jersey. Rétt rúmir 1,4 milljarðar króna eru á Bresku Jómfrúreyjum og einungis 215 milljónir króna eru á Mön. Þá eiga innlendir aðilar tæpa 9,3 milljarða króna í Sviss.

Til samanburðar áttu innlendir aðilar rúma 50 milljarða króna erlendis árið 2008. Þar af voru 24 milljarðar króna á Caymaneyjum samanborið við 7,5 milljarða króna í fyrra. Sömuleiðis hafa eignir innlendra aðila dregist saman í Sviss en þar fóru þær úr 22 milljörðum í tæpa 9,3 milljarða.

Á móti hafa eignirnar aukist talsvert á Jersey og Guernsey. Til samanburðar áttu innlendir aðilar tæpan 1,5 milljarð króna á Guernsey í lok árs 2008. Í lok síðasta árs námu þær eins og áður sagði 10,6 milljörðum króna.

Landaskipting erlendrar verðbréfaeignar og þróun hennar .