Erlend greiðslukortavelta jókst um ríflega 58% frá desember 2015 til sama mánaðar í fyrra. Fór hún úr 9,4 milljörðum króna í 14,9 milljarða, að því er fram kemur í samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Á sama tíma jókst fjöldi ferðamanna til landsins um 76% milli ára og var heildarfjöldinn í desembermánuði síðastliðinn 124.780 ferðamenn.

Fjórföldun á tveimur árum

Mesta aukningin á milli áranna var í greiðslukortaveltu farþegaflutninga, eða 155,5%, og nam hún 3,3 milljörðum króna í desember síðastliðnum. Hefur kortavelta flugfélaga fjórfaldast á tveimur árum úr því að vera 700 milljónir í desember 2014.

Einnig var mikil aukning í greiðslukortaveltu gististaða milli ára eða 61,3% en hún fór úr 1,6 milljarði í 2,6 milljarða. Starfsemi ferðaskrifstofa jókst um 46,4% og fór í 2,2 milljarða króna síðastliðinn desember.

Greiðslukortavelta bílaleiga jókst um 69,1% milli áranna og fór hún í 794 milljónir úr 469 milljónum árið áður. Greiðslukortavelta í verslunum jókst um 25%, aðallega í dagvöru og tollfrjálsri verslun eða rúmlega 50% meðan hún var minni í fataverslun eða 13,1%.

50% aukning milli áranna 2015 og 2016

Aukning í fjölda ferðamanna á öllu árinu 2016 nam 40% miðað við allt árið á undan og komu alls 1.767.726 ferðamenn um Leifsstöð á árinu.

„Allt árið 2016 greiddu erlendir ferðamenn 232 milljarða hérlendis með kortum sínum, meira en helmingi meira en árið 2015 þegar greiðslukortaveltan var 154,4 milljarðar,“ segir í tilkynningunni, en þar kemur fram að erlenda veltan sé nærri fjórðungur allrar greiðslukortarveltunnar hérlendis.

„[Ö]ll velta greiðslukorta á Íslandi á árinu 2016 nam 1.006 milljörðum. Af þeirri upphæð var velta innlendra korta 773 milljarðar og velta erlendra korta 232 milljarðar eins og áður sagði.“