1.780 einstaklingar og fjölskyldur eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá sjö stærstu sveitarfélögum landsins samkvæmt könnun velferðarráðuneytisins. Kemur þetta fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Á sama tíma voru þessi sömu sveitarfélög með um 2.970 félagslegar íbúðir til útleigu. Ef skoðaður er fjöldi íbúða sem þessi sveitarfélög úthlutuðu á fyrstu sex mánuðum þessa árs voru þær samtals 140 sem svarar tæplega 8% af þörfinni miðað við heildarfjölda á biðlista í júní.

Í tilkynningunni er haft eftir Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, að upplýsingarnar gefi til kynna að verulega skorti á að sveitarfélögin uppfylli skyldur sínar í húsnæðismálum. „Það þarf augljóslega að fara miklu betur í saumana á þessum málum og leita skýringa hjá sveitarfélögunum á því hvað veldur,“ segir Eygló.